Hádegisfundur um hjólaleið
– milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur
Eiríkur Á. Magnússon, byggingaverkfræðingur hjá Mannvit kynnir mögulega leið fyrir reiðhjól á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur á opnum hádegisfundi þriðjudaginn 22. apríl nk. Kynningin fer fram á Gamla pósthúsinu í Vogum og hefst kl. 12:10.
Hjólreiðar njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi bæði sem samgöngumáti og afþreying. Hjólaleið milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Reykjavíkur gæti bætt aðgengi hjólreiðamanna að Reykjanesi, stuðlað að auknu öryggi vegfarenda og aukið ánægju þeirra. Eiríkur hefur kortlagt leiðina og reiknað út kostnað við gerð hennar. Kannað var sérstaklega hvar þyrfti að byggja upp nýja stíga og hvar er hægt að nota núverandi gatna- og stígakerfi. Þá var kannað hvar hugsanlegt væri að nálgast fjármagn í framkvæmdina.
Hádegisfundurinn er hluti af fyrirlestrarröð Heklunnar, Kadeco, Keilis, Reykjanes jarðvangs og Markaðsstofu Reykjaness.