Gunnar og Þróttur fengu menningarverðlaun
Menningarverðlaun Sveitarfélagsins Voga voru afhent á sumardaginn fyrsta. Frístunda- og menningarnefnd auglýsir eftir tilnefningum, auk þess að fjalla um og taka ákvörðun um hverjir hljóta verðlaunin hverju sinni. Að þessu sinni voru verðlaunahafarnir tveir. Annars vegar Ungmennafélagið Þróttur, og hins vegar Gunnar J. Helgason, fyrrum formaður félagsins.
UMFÞ var stofnað árið 1932, og hefur því starfað í 87 ár. Ungmennafélagið stendur vörð um íþróttastarf í sveitarfélaginu, ásamt því að gegna margvíslegu samfélagslegu hlutverki, ekki síst fyrir börn og ungmenni.
Gunnar J. Helgason hefur starfað um margra ára skeið fyrir UMFÞ, var m.a. formaður félagsins um hríð og iðinn iðkandi. Hann hefur verið eljusamur í sjálfboðastarfi fyrir félagið, ekki síst hvað varðar uppbyggingu aðstöðu.