Gunnar gefur kost á sér í 1.-2. sæti
Gunnar Þórarinsson gefur kost á sér í 1. til 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ.
Helstu áherslur Gunnars
• Treysta rekstrargrundvöll Reykjanesbæjar með nýrri sókn í atvinnuuppbyggingu, hagræðingu og ráðdeild
• Skapa íbúum Reykjanesbæjar skilyrði til vel launaðra starfa hjá traustum fyrirtækjum og standa þétt við bakið á þeim fyrirtækjum sem uppfylla þessar kröfur
• Standa vörð um menntun, æskulýðsstarf og lífsgæði bæjarbúa
Störf
Gunnar hefur frá árinu 2010 setið í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Hann var forseti bæjarstjórnar fyrsta árið en hefur síðan verið formaður bæjarráðs. Gunnar hefur verið formaður stjórnar Fasteigna Reykjanesbæjar á kjörtímabilinu sem eiga og reka félagsíbúðir á vegum bæjarins. Jafnframt hefur Gunnar verið stjórnarmaður í stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, ýmist sem formaður eða varaformaður stjórnar. Gunnar hefur verið formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar allt kjörtímabilið.
Gunnar hefur látið til sín taka við félagsmál í bæjarfélaginu. Hann var formaður knattspyrnudeildar UMFN frá 1982 til 1987, formaður Íþróttabandalags Suðurnesja frá 1979 til 1984, í stjórn körfuknattleiksdeildar UMFN 1996 til 1998 og formaður Golfklúbbs Suðurnesja frá 2002 til 2008. Gunnar er í sóknarnefnd Ytri-Njarðvíkurkirkju.
Gunnar er smiður og viðskiptafræðingur að mennt. Hann hefur ásamt eiginkonu sinni rekið bókhalds- og ráðgjafarfyrirtækið Rekstrarþjónustu G.Þ. frá árinu 1980. Gunnar vann við húsasmíðar á námsárum sínum, starfaði um hríð hjá Verðlagsstofnun og síðan við kennslu og stjórnun í viðskiptagreinum við Fjölbrautarskóla Suðurnesja um árabil.
Fjölskylduhagir
Gunnar er kvæntur Steinunni Sighvatsdóttur, bókara og ráðgjafa. Þau eiga þrjú uppkomin börn: Guðna Þór, endurskoðanda í Reykjanesbæ, sem kvæntur er Guðrúnu Pálsdóttur, hjúkrunarfræðingi og ljósmóður, Sighvat Inga, útibússtjóra Íslandsbanka í Reykjanesbæ, sem kvæntur er Þóru Kristínu Sveinsdóttur, grafískum hönnuði og dagmóður, og Guðlaugu Sunnu, námsráðgjafa við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ, sem gift er Bjarna Sæmundssyni, vélsmiði. Barnabörnin eru alls 12.