Gunnar Axel Axelsson ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga
Gunnar Axel Axelsson viðskipta- og stjórnsýslufræðingur og deildarstjóri á efnahagssviði Hagstofu Íslands hefur verið ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga. Alls sóttu 40 umsækjendur um starfið og sex drógu umsóknir sínar til baka.
Gunnar Axel hefur starfað hjá Hagstofu Íslands frá 2005. Hann er deildarstjóri þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála hjá Hagstofu Íslands en starfaði áður sem sérfræðingur í gerð hagtalna um fjármál sveitarfélaga og sérfræðingur á sviði launa- og kjararannsókna. Gunnar Axel var aðstoðarmaður velferðarráðherra á árunum 2012-2013.
Gunnar Axel hefur víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum, sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar á árunum 2010-2018 og sinnti m.a. formennsku í bæjarráði og fjölskylduráði auk annarra nefndarstarfa. Gunnar Axel hefur setið í ýmsum stjórnum, nefndum og ráðum fyrir hið opinbera og sem kjörinn fulltrúi. Hann sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um árabil, í stjórnum Strætó Bs og Rio Tinto Alcan á Íslandi og í nefnd ráðherra sveitarstjórnarmála um stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins.
Gunnar Axel lauk MPA-gáðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2014, BS-gráðu í viðskiptafræðum frá Háskólanum á Bifröst árið 2003 og stundaði nám í Evrópufræðum við Viðskiptaháskólann í Árósum 2003-2004.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga hlakkar til samstarfsins við Gunnar Axel en hann mun hefja störf á haustmánuðum.
Frétt og ljósmynd af vef Sveitarfélagsins Voga