Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gunna malar gull en glímir við fjárskort
Mánudagur 26. október 2009 kl. 11:05

Gunna malar gull en glímir við fjárskort

Ferðamálasamtökum Suðurnesja þykir það kaldhæðnislegt að á sama tíma og helmingur orku Reykjanesvirkjunar komi undan Gunnuhver og þar með helmingur tekna, skuli fjárskortur hamla því að ráðist sé í lagfærðingar við hverinn vinsæla.


Gunnuhver er ein af ferðamannaperlum Reykjanessins og hefur í gegnum tíðina dregið að sér fjölda ferðamanna. Almannavarnir hafa hins vegar lokað aðgenginu að Gunnuhver, vegna þess að vegurinn í gegnum svæðið hefur hreinlega soðið í sundur og eins hafa göngubrýr og útsýnispallar við hverinn eyðilagst. Málið var til umfjöllunar á aðalfundi Ferðamálasamtaka Suðurnesja á dögunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þetta hefur gerst vegna aukinnar virkni við hverinn og er óumdeilt að orsakast af borunum HS orku undir hvernum. „Það er því mikill skaði hve lengi hefur dregist að lagfæra aðgengið. Hitaveitan hefur viðurkennt að hún beri ábyrgð á þessu og hefur FSS, Reykjanesbær, Grindavíkurbær og umhverfisstofnun unnið með Hitaveitunni að lausnum sem nú liggja fyrir samþykktar af öllum aðilum. Helmingurinn af þeirri raforku sem kemur frá Reykjanesvirkjun kemur undan Gunnuhver og tekjurnar um leið. Það er því frekar kaldhæðnislegt að nú er sagt að ekki sé hægt að lagfæra skemmdirnar við Gunnuhver vegna fjárskorts. Það er krafa FSS að þeim úrbótum sem samþykktar hafa verið verði tafarlaust hrint í framkvæmd,“ segir í skýrslu formanns Ferðamálasamtaka Suðurnesja sem kynnt var á aðalfundi samtakanna á dögunum. Samtökin sendu einnig frá sér ályktun um málið.


Ferðamálasamtök Suðurnesja harma mjög langvarandi lokun háhitasvæðisins við Gunnuhver á Reykjanesi. Þetta kemur fram í ályktun frá aðalfundi samtakanna sem beint er til stjórnar HS orku.


„Þessi lokun hefur að áliti fundarins skaðað verulega ferðaþjónustuna á utanverðu Reykjanesi. Fundurinn beinir þeirri eindregnu ósk til stjórnar HS orku að hefja nú þegar lagfæringar á aðgenginu að háhitasvæðinu og Gunnuhver samkvæmt fyrirliggjandi tillögu þannig að opna megi svæðið að nýju,“ segir í ályktun aðalfundarins.



Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson