Gúmmíkurli skipt út í Grindavík á næsta ári
- Vilja vera til fyrirmyndar og leyfa börnunum að njóta vafans
Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa ákveðið að skipta út efnum af tveimur sparkvöllum í bæjarfélaginu sem eru með dekkjakurli því sem Læknafélag Íslands hefur varað við. Annar völlurinn er frá árinu 2006 og hinn frá 2010. Skipta á gúmmíkurlinu út á næsta ári. Í svari við fyrirspurn Víkurfrétta kemur fram að framkvæmdin hafi verið sett inn á fjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar fyrir árið 2016. Ákveðið hafi verið að vera til fyrirmyndar og leyfa börnunum að njóta vafans.
Skipt verður um bæði gervigras og gúmmíkurl á eldri vellinum. Á nýrri vellinum verður dekkjakurlið ryksugað burt og gúmmí af viðurkenndri gerð sett í staðinn, það er ljóst að lit og án efna sem teljast skaðleg heilsu eða mengandi. Er það í samræmi við samþykkt stjórnar KSÍ frá 9. október síðastliðnum þar sem samþykkt var að mæla gegn notkun á endurnýttum hjólbörðum í nýjum völlum með knattspyrnugrasi og við endurnýjun eldri valla.