Guðný fer úr Framsókn í Samfylkingu
Guðný Kristjánsdóttir, aðalbæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ, hefur tilkynnt úrsögn sína úr Framsóknarflokknum. Samkvæmt heimildum VF mun hún ætla að bjóða sig fram fyrir hönd Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í Guðnýju til að fá þetta staðfest.
Flokkarnir sem mynduðu A-listann í Reykjanesbæ munu bjóða fram undir eigin merkjum í kosningunum í vor. Samfylkingin hefur boðað opið prófkjör. Á meðal nýrra frambjóðenda þar er Friðjón Einarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Suðurnesja. Hann mun líklega keppa um efsta sætið við Guðbrand Einarsson, núverandi oddvita A-listans.
Með úrsögn Guðnýjar hafa tveir af efstu mönnum á lista Framsóknar fyrir síðustu kosningar, horfið frá flokknum í Reykjanesbæ. Guðný var varabæjarfulltrúi fyrir Eystein Jónsson, sem fluttist búferlum fyrir nokkru og hætti sem bæjarfulltrúi.
---
VFmynd -Guðný Kristjánsdóttir.