Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðni Ágústsson: Mikilvægt að Suðurnesjamaður komi í eitt toppsætanna
Miðvikudagur 24. janúar 2007 kl. 16:53

Guðni Ágústsson: Mikilvægt að Suðurnesjamaður komi í eitt toppsætanna

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins og landbúnaðarráðherra, hlaut afgerandi kosningu í efsta sæti í prófkjöri flokksins í Suðurkjördæmi um helgina. Spennandi kosningabarátta var um efsta sætið þar sem Hjálmar Árnason gaf einnig kost á sér en hann ákvað í kjölfar prófkjörsins að hverfa af vettvangi stjórnmála.


Guðni sagðist, í samtali við Víkurfréttir, hafa fundið mikinn meðbyr um allt kjördæmið á síðustu dögum prófkjörsbaráttunnar.
„Framsóknarmenn stóðu með sínum varaformanni og ráðherra,“ sagði hann en bætti því við að eftirsjá yrði af Hjálmari. „Hjálmar hefur talað af drenglyndi og tók úrslitunum með karlmennsku. Við höfum verið bræður í þingflokki Framsóknar í 12 ár og höfum átt gott samstarf og ég mun sakna hans þar.“


Jafnan er talið að prófkjör til að velja á lista flokka sé góð leið til að skapa stemmningu og umtal í kringum flokksstarfið. Á hinn bóginn hafa líka komið upp innanbúðardeilur með skaðlegum áhrifum á flokka sem að þeim standa, en Guðni segir ekki spurningu um að prófkjörið hafi gert Framsókn gott eitt. „Eftir á erum við mun sterkarri í kjördæminu öllu. Hjálmar sýndi styrk sinn á Suðurnesjum og hefur verið vinsæll þingmaður í öllu kjördæminu en nú verður að fylla í hans skarð og það þarf að gera með varfærni.“ Guðni vildi ekki gefa út skoðun sína á því máli en sagði þetta mál kjörstjórnar kjördæmisins.

Aðspurður hvort hann teldi listann veikjast ef Suðurnesjamenn ættu ekki málsvara í efstu sætum lista sagði hann að þeir ættu málsvara í honum. „Ég vil minna á að ég er þingmaður Suðurnesja jafnt og annarra staða í kjördæminu og hef komið að málum Suðurnesja í þingi sem og ríkisstjórn. Auðvitað er það sterkt og mikilvægt að Suðurnesjamaður komi í eitthvert toppsætanna við brotthvarf Hjálmars sem hlaut bindandi kosningu í 3ja sætið.“

 

Guðni sagðist að lokum bjartsýnn á komandi kosningar. „Mér sýnist að við teflum fram sterkum og sannfærandi lista og öflugu baráttufólki og finn áhuga og stuðning meðal kjósenda.“

 

VF-mynd/Pket

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024