Guðmundur Ragnar Magnússon maður ársins 2018 á Suðurnesjum
Guðmundur Ragnar Magnússon, stýrimaður og sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, er maður ársins 2018 á Suðurnesjum að mati dómnefndar Víkurfrétta. Guðmundur fékk viðurkenninguna afhenta sl. laugardag. Hann var þá að fara í sitt fyrsta flug með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá því hann tók þátt í björgun fimmtán manna af strönduðu flutningaskipi við Helguvík í nóvember sl.
Það var hlutverk Guðmundar að síga niður í skipið, stjórna aðgerðum þar og koma öllum fimmtán skipbrotsmönnunum heilum upp í þyrluna. Guðmundur Ragnar slasaðist við björgunaraðgerðina en lét það ekki stoppa sig og lauk krefjandi verkefni í samstarfi við félaga sína í áhöfn björgunarþyrlunnar.
„Tilfinningin er mjög góð. Það er heiður að hafa lent inn á þessum lista,“ segir Guðmundur Ragnar Magnússon, stýrimaður og sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við því að hann hafi hlotið nafnbótina „Suðurnesjamaður ársins 2018“.
Rætt er við Guðmund Ragnar í Víkurfréttum í dag og í Suðurnesjamagasíni á fimmtudagskvöld á Hringbraut og vf.is.