Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðlaug Rakel skipuð forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, nýr forstjóri HSS.
Þriðjudagur 19. desember 2023 kl. 17:54

Guðlaug Rakel skipuð forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til fimm ára, frá 1. mars 2024. Lögskipuð hæfnisnefnd sem metur hæfni umsækjenda um stöður forstjóra mat Guðlaugu Rakel mjög vel hæfa til að gegna embættinu.

Guðlaug Rakel er hjúkrunarfræðingur að mennt. Hún er einnig með meistaranám í viðskiptafræðum frá Háskóla Íslands (HÍ) og hefur jafnframt lokið ýmsum námskeiðum í lýðheilsuvísindum innan læknadeildar HÍ í tengslum við doktorsverkefni sem hún vann að um faraldsfræði notenda bráðamóttaka.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðlaug Rakel hefur langa og víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, auk þess að hafa um árabil starfað sem hjúkrunarfræðingur. Frá árinu 2000 hefur hún sinnt ýmsum stjórnunarstörfum innan heilbrigðiskerfisins. Árið 2019 tók hún við starfi framkvæmdastjóra meðferðarsviðs Landspítala þar til hún var sett tímabundið í embætti forstjóra Landspítala haustið 2021.

Í umsögn hæfnisnefndar er m.a. bent á mikla og fjölþætta reynslu Guðlaugar Rakelar af rekstri og stjórnun með umfangsmiklum mannaforráðum þar sem m.a. hefur reynt á fjármálaumsýslu og áætlanaðgerð. Hún hafi í störfum sínum öðlast víðtæka þekkingu á opinberri stjórnsýslu og fjármálum hins opinbera. Enn fremur hafi hún gegnt leiðandi hlutverkum við stefnumótun og innleiðingu nýjunga í heilbrigðisþjónustu með góðum árangri. Það er mat hæfnisnefndar að Guðlaug Rakel hafi afburða leiðtogahæfileika, framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum með áherslu á árangursmiðað samstarf og sé mjög vel hæf til að gegna embættinu.