Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðjón flatmagar heima en afturendinn af Sigurvin fer á Sunnu Líf
Hvernig verður Sunna Líf þegar hún fær afturendann af Sigurvin KE?
Þriðjudagur 5. mars 2019 kl. 09:37

Guðjón flatmagar heima en afturendinn af Sigurvin fer á Sunnu Líf

Nýjustu aflafréttir í Víkurfréttum

Það er nú ekki beint blíða þar sem ég er staddur núna þegar ég skrifa þessi orð. Er á Fosshótelinu á Hnappavöllum í Öræfasveit undir Vatnajökli. Veður hérna alveg snarvitlaust og spáin virkilega slæm.

Var mikið að hugsa um hvernig get ég tengt þetta svæði við Suðurnesin og þá sérstaklega sjávarútveginn. Það varð fátt um tengingar. Enda er á þessu svæði engin útgerð, engin höfn en utan við Ingólfshöfða eru mjög góð humarmið sem að Hornfirðingar hafa sótt á í mörg ár. Kanski er eina tenginginn sem hægt er að finna hérna sú að stóru línubátarnir frá Grindavík hafa verið að veiða hérna fyrir utan og á svæði suður með landinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Og fyrst ég er komin í stóru línubátana þá er best að kíkja á aflatölurnar hjá þeim en þeir hafa fiskað mjög vel núna í febrúar. Núna er Hrafn GK aflahæstur með 427,9 tonn og Páll Jónsson GK er þar á eftir með 427,8 tonn. Það munar ekki nema 106 kílóum á milli þeirra tveggja sem er virkilega lítill munur.

Sighvatur GK er kominn með 417 tonn í þremur róðrum, og núna er báturinn kominn í slipp í Njarðvík en setja á veltitank á bátinn og meiri ballest í kjölinn til þess að hann velti minna á sjónum.

Sturla GK er með 336 tn. í fjórum róðrum og mest 139 tonn í einni löndun,

Veður er búið að vera frekar leiðinlegt síðustu daganna og hafa minni bátarnir ekkert komist á sjóinn. Netabátarnir hafa aftur á móti fiskað vel og er Erling KE kominn með 335 tn. í sautján róðrum og mest 34 tonn. Grímsnes GK 150 tn. í sextán róðrum, Maron GK 106 tn. í fimmtán og mest 15,2 tonn. Hraunsvík GK 49 tn. í ellefu róðrum og mest 8,3 tonn. Halldór Afi GK 45,3 tn. í þrettán og mest 8,4 tonn. Þorsteinn ÞH 36 tn í þremur róðrum, Bergvík GK 45 tn. í tólf róðrum og mest 8 tonn.

Talandi um netabátana þá vantar tvo báta núna á veiðar sem voru á netaveiðum árið 2018. Hinn fyrri er Sunna Líf GK en báturinn er núna í miklum breytingum í Sandgerði hjá Sólplasti. Eigandinn af Sunnu Líf GK keypti bátinn Sigurvin GK sem var búinn að standa á lóðinni hjá Sólplasti í ansi langan tíma. Afturendinn var klipptur af Sigurvin GK og Sólplast er að smella honum aftan á Sunnu Líf KE. Með þessu þá fæst meira dekkpláss á Sunnu Líf GK og verður fróðlegt að sjá hvernig báturinn mun líta út eftir þessar breytingar,

Hinn báturinn sem ekki hefur ennþá hafið veiðar er Valþór GK. Þar um borð er Guðjón Bragason skipstjóri en Gaui Braga eins og hann er kallaður er einn reynslumesti netaskipstjórinn á Suðurnesjunum. Hann hefur róið á net í yfir 30 ár en flatmagar bara heima núna. Valþór GK er kvótalaus og spurning hvað sé að valda því að báturinn fari ekki á sjóinn. Vonandi að það fari nú að rætast að Valþór GK geti farið á sjóinn aftur.

Dragnótabátarnir hafa mokveitt. Benni Sæm GK með 173 tn. í sextán róðrum, Siggi Bjarna GK 167 tn. í fimmtán, Sigurfari GK 119 tn. í tólf og Aðalbjörg RE 57 tn í átta róðrum.