Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðfinnur jarðsettur frá Keflavíkurkirkju
Föstudagur 25. nóvember 2016 kl. 13:00

Guðfinnur jarðsettur frá Keflavíkurkirkju

Guðfinnur Sigurvinsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Keflavík sem lést þann 16. nóvember var jarðsettur frá Keflavíkurkirkju í gær. Sr. Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur í Keflavík jarðsöng og Elmar Þór Hauksson söng einsöng við útförina. Synir og ættingjar Guðfinns báru kistu hans úr kirkjunni.

Guðfinnur var fæddur í Keflavík 6. júlí 1936 og sleit þar barnsskónum. Hann var meðal þeirra er fyrst útskrifuðust frá Gagnfræðaskóla Keflavíkur en hann lauk síðar prófi frá Samvinnuskólanum. Guðfinnur var ætíð virkur í félagslífi og var öflugur frjálsíþróttamaður. Hann lék á klarinett og var meðal stofnenda Lúðrasveitar Keflavíkur.

Guðfinnur stundaði um tíma verslunarrekstur við Túngötu í Keflavík, ásamt Agnari bróður sínum og Sigurði Eyjólfssyni. Síðar varð hann umsvifamikill fasteignasali í Keflavík, en hann rak fasteignasölu ásamt Vilhjálmi Þórhallssyni. Meðal annarra starfa má nefna að hann starfaði sem skrifstofustjóri hjá Hraðfrystihúsi Keflavíkur (Stóru milljón) í nokkur ár.

Guðfinnur settist fyrir Alþýðuflokkinn, sem aðalmaður í bæjarstjórn Keflavíkur árið 1976 og þjónaði bæjarfélaginu sem slíkur sleitulaust til ársins 1994. Árið 1986 leiddi Guðfinnur Alþýðuflokkinn til sigurs í bæjarstjórnarkosningunum þegar flokkurinn fékk hreinan meirihluta. Guðfinnur var forseti bæjarstjórnar frá 1986 til 1988, þá varð hann bæjarstjóri og gegndi því embætti til ársins 1990. Í gegnum árin sat Guðfinnur einnig í bæjarráði og var um tíma formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Guðfinnur var um skeið í Varnarmálanefnd Utanríkisráðuneytisins. Síðar hóf hann störf sem deildarstjóri hjá Varnarliðinu. Hann lauk starfsferli sínum sem aðstoðarflugvallarstjóri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa í samfélaginu. Var félagi í Málfundafélaginu Faxa og Lionsklúbbs Keflavíkur, var um árabil stjórnarmaður og formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja og um skeið stjórnarmaður í Kaupfélagi Suðurnesja.
Guðfinnur lætur eftir sig eiginkonu og fimm uppkomin börn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024