Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðbrandur segir sig úr Samfylkingunni
Fimmtudagur 17. mars 2011 kl. 22:10

Guðbrandur segir sig úr Samfylkingunni

Guðbrandur Einarsson, fyrrverandi oddviti Samfylkingarinnar og A-listans í Reykjanesbæ hefur sagt sig úr Samfylkingunni. Hann sendi formanni flokksins, Ólafi Thordersen, bréf þessa efnis í dag og nefnir þar nokkur atriði ástæðu úrsagnar sinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðbrandur sem varð undir í baráttu um efsta sæti listans í prófkjöri flokksins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar gegn Friðjóni Einarssyni þáði ekki 2. sæti á listanum fyrir kosningarnar. Hann nefnir þrjú atriði sem gerði það að verkum að hann ákvað að segja skilið við Samfylkinguna.

Í fyrsta lagi ákvörðun núverandi bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar að leggjast gegn tillögu sem hann hafði unnið að með bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna uppbyggingar nýs hjúkrunarheimilis, sem heimild hafði fengist af hálfu ríksins til að byggja og reka. Guðbrandur leit á það sem vantraust á hans störf.

Í öðru lagi að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar skyldu ekki samþykkja tillögu sem Sjálfstæðismenn og Framsókn lögðu fram á bæjarstjórnarfundi nýlega um að orkuauðlindir ættu að vera í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Tillögu þessa efnis lagði Guðbrandur fram árið 2008 án þess að hún væri samþykkt en Sjálfstæðismenn endurfluttu hana nú. „Það er því ljóst að stefna þeirra sem nú ráða ríkjum í Samfylkingunni í Reykjanesbæ er önnur en stefna mín var og er í þessum málum. Í þeirra augum virðist skipta máli hverjir flytja tillögurnar,“ segir Guðbrandur í bréfi sínu.

Í þriðja lagi var sú ákvörðun flokksins að skipa nýjan fulltrúa í stjórn HS veitna, stjórnarstarf sem Guðbrandur hefur sinnt frá árinu 2007, án nokkurs samráðs við hann. Guðbrandur hafði lýst því yfir við formann flokksins í Reykjanesbæ að hann hefði áhuga á að sinna því stjórnarstarfi áfram.

„Ég sé því ekki að skoðanir mínar og þeirra sem eru forsvarsmenn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ nú um stundir fari saman á nokkurn hátt. Ég lít þannig á að það sem ég nefni í lið 3 staðfesti að félagið hafi heldur ekki áhuga á að nýta sér krafta mína frekar og sé því engan tilgang með áframhaldandi veru minni í flokknum sem ég hef starfað með frá stofnun hans,“ segir Guðbrandur meðal annars

.

--

Bréfið í heild frá Guðbrandi:

Samfylkingin í Reykjanesbæ. Hr. Ólafur Thordersen, formaður
Efni: Úrsögn úr Samfylkingunni í Reykjanesbæ
Reykjanesbæ 17. mars 2011

Ég undirritaður Guðbrandur Einarsson kt. 2901058-3619 segi mig hér með úr Samfylkingunni í Reykjanesbæ.

Það hefur verið ljóst frá prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ í byrjun árs 2010 að leið mín og margra þeirra sem nú ráða ríkjum í Samfylkingunni í Reykjanesbæ lægju ekki saman. Vil ég nefna nokkur atriði í þessu sambandi sem m.a hafa orðið þess valdandi að ég tek þessa ákvörðun um að segja mig úr flokknum.

Ég var skipaður í nefnd af hálfu þess bæjarráðs sem sat fyrir síðustu kosningar. Þessari nefnd var ætlað það hlutverk að meta hvaða kostir byðust við uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis, sem heimild hafði fengist af hálfu ríksins til að byggja og reka. Okkur var ætlað að skila niðurstöðu til bæjarráðs sem síðan skyldi halda málinu áfram.

Það er skemmst frá því að segja að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðust gegn þeirri tillögu sem ég, ásamt Böðvari Jónssyni bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, lögðum til við bæjarráð. Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn m.a hefur ítrekað haldið því fram að málið hefði verið illa undirbúið og vanreifað.

Ég leyfi mér að líta á þessi viðbrögð bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar sem vantraust á mín störf.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, ásamt bæjarfulltrúa Framsóknarflokks, lögðu fram viljayfirlýsingu á bæjarstjórnarfundi þann 18. janúar sl. þar sem fram kom vilji þeirra til þess að bjóða ríkisvaldinu kaup á þeim náttúruauðlindum sem sveitarfélagið eignaðist árið 2009 við uppskiptin á Hitaveitu Suðurnesja í HS Veitur og HS Orku. Þessi viljayfirlýsing sjálfstæðismanna boðaði algjör sinnaskipti af þeirra hálfu. Þeir höfðu áður hafnað slíkri tillögu sem lögð var fram af mér og Eysteini Jónssyni í bæjarráði í október árið 2008. Bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins var tilbúinn til að styðja þessa yfirlýsingu en ekki bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar sem sögðu hana hafa verið lagða fram með alltof stuttum fyrirvara. Vissulega er hægt að halda því fram að tillagan hefði mátt liggja frammi með lengri fyrirvara en ég spyr að því hvers vegna bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ gátu ekki samþykkt tillögu sem er algjörlega í samræmi við stefnu flokksins um að auðlindir skuli vera í sameiginlegri eigu þjóðarinnar. Það var sú tillaga sem ég lagði fram haustið 2008 og sjálfstæðismenn endurfluttu í yfirlýsingarformi nú nýverið.

Það er því ljóst að stefna þeirra sem nú ráða ríkjum í Samfylkingunni í Reykjanesbæ er önnur en stefna mín var og er í þessum málum. Í þeirra augum virðist skipta máli hverjir flytja tillögurnar.

Ég tók sæti í stjórn Hitaveitu Suðurnesja árið 2007 og síðan í stjórn HS Veitna þegar að það fyrirtæki varð til við uppskipti Hitaveitu Suðurnesja á árinu 2008 og hef setið þar síðan. Á fundi bæjarráðs þann 17. sl. var tilnefnt í stjórn HS Veitna vegna ársins 2011 – 2012. Það liggur nú fyrir að forráðamenn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ hafa ákveðið að skipa nýjan fulltrúa í stjórn HS Veitna í minn stað. Þetta er gert án samráðs við mig sem sitjandi fulltrúa og án þess að ég hafi verið upplýstur um að þessar breytingar stæðu til.

Ég vil taka það fram að ég hafði áður lýst yfir vilja mínum til þess að halda þessu starfi mínu áfram við formann Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.

Að mínu viti hef ég verið ötull talsmaður hagsmuna íbúa Reykjanesbæjar í málefnum Hitaveitu Suðurnesja og síðar HS Orku og HS Veitna en það er greinilegt að forsvarsmenn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ eru annarar skoðunar.

Ég sé því ekki að skoðanir mínar og þeirra sem eru forsvarsmenn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ nú um stundir fari saman á nokkurn hátt. Ég lít þannig á að það sem ég nefni í lið 3 staðfesti að félagið hafi heldur ekki áhuga á að nýta sér krafta mína frekar og sé því engan tilgang með áframhaldandi veru minni í flokknum sem ég hef starfað með frá stofnun hans. Ég mun því leita mér nýs farvegs í þeirri viðleitni minni að láta mig varða þróun þessa samfélags okkar. Ég vil þakka fyrir ánægjuleg samskipti við mörg flokkssystkini mín og óska þeim velfarnaðar í sínum störfum.

Virðingarfyllst

___________________________________
Guðbrandur Einarsson