Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Guðbrandur leiðir lista Viðreisnar
Laugardagur 3. apríl 2021 kl. 10:52

Guðbrandur leiðir lista Viðreisnar

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og fyrrum formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja mun leiða lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar. 

„Ég vil vinna að breytingum sem leiða til jafnræðis, aukins frelsis og meiri virðingar fyrir fjölbreytni mannlífsins,“ segir Guðbrandur. „Í rúma tvo áratugi hef ég tekið þátt í réttindabaráttu launafólks og unnið að bættum hag samfélagsins míns með þátttöku í sveitarstjórnarmálum. Það er vegferð sem ég vil halda áfram á þingi. Þar er mikilvægast að styðja við og styrkja það nauðsynlega öryggisnet sem þarf að vera til staðar í Suðurkjördæmi.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurður af hverju hann hafi kosið að ganga til liðs við Viðreisn segir Guðbrandur: „Í Viðreisn upplifi ég að borin sé virðing fyrir fólki, alls konar fólki. Í Viðreisn er lausnamiðað fólk sem er tilbúið til gera breytingar, þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni. Slíkum hópi vil ég tilheyra.

Guðbrandi, sem oftast er kallaður Bubbi, er lýst af vinum sínum sem þrjóskum, traustum og vinnusömum. Hann hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri Verslunarmannafélags Suðurnesja, verslunarstjóri Kaskó í Keflavík og framkvæmdastjóri Nýs miðils, sem rak útvarpsstöðina Brosið og vikublaðið Suðurnesjafréttir. Hann hefur um árabil verið bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og er nú forseti bæjarstjórnar. Hann var í rúm 20 ár formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, sat í stjórn Landssambands íslenskra Verslunarmanna og var formaður sambandsins í sex ár. Þá hefur hann einnig tekið að sér ýmis trúnaðarstörf fyrir ASÍ og sat m.a. í miðstjórn sambandsins í 14 ár..

Uppstillingarnefnd Viðreisnar í Suðurkjördæmi er enn að störfum og verður heildarlisti kynntur síðar.