Guðbrandur: Hver er tilgangurinn með Fasteign?
„Það mátti svo sem reikna með að þessi staða kæmi upp þegar ljóst var að í samfélaginu var niðursveifla og við fórum að sjá fyrirtæki eins og FL Group og Glitni eiga í erfiðleikum, fyrirtæki sem hafa löngum staðið á bak við Fasteign. Þá lá það fyrir að Fasteign myndi eiga í erfiðleikum með að endurfjármagna sig. Það lá líka fyrir að á þessu ári yrði sú endurfjármögnun að eiga sér stað en hún er ekki að ganga eftir eins og menn ætluðu sér.
Það kemur auðvitað fram í þessu að þeir sem hafa viljað halda sveitarfélögunum þarna inni eru núna að koma á hnjánum til Lánasjóðs sveitarfélaga eftir peningum til að geta haldið áfram að reka Fasteign,“ segir Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans í Reykjanesbæ, inntur eftir viðbrögðum sínum þá stöðu sem Fasteign hf er komin í og greint er frá í morgun. A-listinn hefur haldið uppi harðri gagnrýni á stefnu meirihluta sjálfstæðismanna varðandi Fasteign.
Í 24 stundum í morgun er greint frá því að Sandgerðisbær taki lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga til að fjármagna viðbyggingu við grunnskólann. Blaðið hefur eftir Ólafi Þór Ólafssyni, fulltrúa Samfylkingar í bæjarstjórn, að Sandgerðisbær sé að taka lán, framselji það til Fasteignar og greiði síðan leigu af byggingunni til Fasteignar til að hægt sé að borga lánið niður.
„Þegar þessi staða er komin upp spyr maður sig auðvitað að því hver tilgangurinn sé með Fasteign.“ segir Guðbrandur. „Það var talað um það á sínum tíma og bæjarstjórinn í Reykjanesbæ, Árni Sigfússon, hefur löngum haldið því fram að það væri miklu hagstæðara að sameinast innan Fasteignar til að njóta góðra lánakjara, það myndi gagnast Reykjanesbæ. En núna er staðan sú að Reykjanesbær fær betri lánakjör en Fasteign. Hver er þá tilgangurinn með því að vera í Fasteign?“
„Ég vona að þetta verði til þess að draga úr framkvæmdagleði Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ því þeir eru á góðri leið með að koma okkur yfir milljarðinn í húsaleigu. Vonandi hægir þessi staða á þeirri þróun, menn nái að draga andann og átti sig á því að það er fleira til en Fasteign,“ sagði Guðbrandur Einarsson.