Guðbrandur Einarsson: Afstaða bæjarstjóra með GGE verðugt rannsóknarefni
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans í Reykjanesbæ, segir illskiljanlegan þann flýti sem einkennt hafi viðskipti Reykjanesbæjar og Geysis Green Energy vegna HS Orku. Þetta stóra mál afgreiddist á skemmri tíma en það tæki bæjarstjórn að afgreiða umsókn á framlengingu vínveitingaleyfis fyrir skemmtistað í bæjarfélaginu. Slík vinnubrögð væru ávísun á tortryggni. Þetta kom fram í máli Guðbrands á íbúafundinum í Duus-húsum í gær þar sem viðskipti Reykjanesbæjar og GGE voru til umfjöllunar.
Guðbrandur sagði að þeir sem keyrðu málið með slíku offorsi myndu ekki ná fram neinni sátt með slíku vinnulagi. Hann sagði það liggja fyrir að Sjálfstæðismenn ásamt GGE hefðu sameiginlega unnið að málinu án vitneskju eða nokkurrar aðkomu annarra bæjarfulltrúa eða eigenda HS Orku eða HS Veitna. Sú skýlausa afstaða sem bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefði tekið með Geysi Green Energy væri ein og sér verðugt rannsóknarefni sem þyrfti að fara í saumana á.
Guðbrandur kom m.a. inn á það verð sem verið væri að semja um í þessum viðskiptum en deildar meiningar eru um hversu hagstæð þau væru fyrir Reykjanesbæ. Hann vitnaði til blaðagreinar sem Böðvar Jónsson skrifaði í VF í síðustu viku undir fyrirsögninni „Gríðarlega hagstæður samningur fyrir Reykjanesbæ segja ráðgjafar Deloitte“.
Guðbrandur spurði hvort ekki væri rétt að óska eftir skriflegri staðfestingu frá þessum aðilum, úr því verið væri að halda þessu fram. Hann vitnaði í skriflegt minnisblað þessara sömu aðila þar sem ekkert kæmi fram um hagkvæmni þessara viðskipta. Þvert á móti væri bent á það í minnisblaðinu að til þessað leggja mat á það hvort tilboð á grundvelli núverandi hugmynda GGE væri viðunandi fyrir Reykjanesbæ væri nauðsynlegt að endurskoða verðmat bæði á HS Orku og HS Veitu miðað við breyttar aðstæður.
„Fyrir utan virðismatið á HS Veitum hljótum við einnig að spyrja hvers vegna Reykjanesbær ætlar sér að eignast 67% hlut í HS Veitum með uppítöku á 32% hlut Geysis Green. Hvað ætlum við okkur með að eiga svo stóran hlut í fyrirtæki sem sér m.a um að koma vatni til Vestmannaeyja og rafmagni til Hafnarfjarðar. Er einhver glóra í slíku fyrir Reykjanesbæ? Gætum við allt eins ekki bara tekið að okkur að dreifa pósti til þessara staða? Meining sjálfstæðismanna í desember sl. var að minnka hlut sinn í HS Veitum verulega en núna eru þeir æstir í að auka hann. Hvað breyttist eiginlega í millitíðinni?“ spurði Guðbrandur.
---
VFmynd/elg – Guðbrandur Einarsson á fundinum í gær.