Grunur um lifrarbólgu A veiru í frosnum jarðarberjum
Samkaup hafa ákveðið að innkalla frosin jarðarber frá COOP vegna hættu á að berin séu menguð af veiru sem veldur lifrarbólgu A. Hafa jarðarberin einnig verið innkölluð annars staðar á Norðurlöndum.
Matvælastofnun hefur fengið upplýsingar frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja um að Samkaup hafi, í samráði við heilbrigðiseftirlitið, ákveðið að innkalla af markaði frosin jarðarber frá COOP með strikamerkinu 7340011360377 þar sem grunur leikur á um að berin séu menguð af veiru sem veldur lifrarbólgu A.
COOP matvælaframleiðandinn hefur einnig gripið til sams konar innköllunar í samráði við matvælayfirvöld í Danmörku og Svíþjóð.
Vöruheiti: „COOP Jordbær“.
Nettóþyngd: 500 g
Sölu- og dreifingaraðili: Samkaup, Krossmóa 4 230 Reykjanesbæ
Best fyrir merking: Allar dagsetningar
Umbúðir: Plastpokar
Geymsluskilyrði: Frystivara
Dreifing: Verslanirnar Nettó, Samkaup Strax, Samkaup Úrval og Kaskó.
Grunur hefur vaknað um að hluti framleiðslunnar hafi mengast af lifrarbólgu A veirunni. Ekki hefur verið sýnt fram á tilvist veirunnar í berjunum, en vegna tengsla milli faraldurs í Skandinavíu og neyslu berjanna hefur COOP ákveðið að innkalla vöruna í varúðarskyni. Neytendum er ráðlagt að skila vörunni til Samkaups eða viðkomandi verslunar, segir á vef Matvælastofnunar.