Grunur um íkveikju í fjölbýli við Hafnargötu í nótt
- Átta fóru á HSS vegna gruns um reykeitrun
Tilkynnt var um eld á þriðju hæð í fjölbýlishúsi við Hafnargötu 32 í Reykjanesbæ um klukkan þrjú í nótt. Eldur logaði í þvottavél í sameiginlegu þvottahúsi og í fatahrúgu á öðrum stað, sem vekur grunsemdir um íkveiku, að því er fram kemur á Facebook-síðu Lögreglustjórans á Suðurnesjum. Í húsinu búa um þrjátíu manns.
Átta íbúar voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna gruns um reykeitrun. Aðrir voru fluttir í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Iðavöllum og hluti hópsins fór til ættingja og vina.
Þegar slökkvilið kom á vettvang höfðu íbúar komist út. Þá voru rúður farnar að springa vegna hita.
Málið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og verður rætt við íbúa í dag. Lögreglan óskar eftir því að allir sem hafi upplýsingar um málið hafi samband, annað hvort í síma 444-2200 eða með því að senda skilaboð í gegnum Facebook-síðu lögreglunnar.
Átta voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja vegna gruns um reykeitrun.