Grunur um íkveikju – Mikið tjón
Húsnæði vélsmiðjunnar Hamars í Sandgerði er mikið skemmt eftir eldsvoða í fyrrinótt. Greinileg ummerki voru um innbrot í bygginguna og vöknuðu því grunsemdir um íkveikju. Það er þó ósannað en lögreglan á Suðurnesjum rannsakar málið.
Húsnæðið hýsti áður starfsemi fiskimjölverksmiðjunnar í Sandgerði en vélsmiðjan Hamar hafði unnið að endurbótum á húsinu. Þar var talsverður eldur þegar slökkvilið kom á vettvang um kl. 4 í fyrrinótt og mikill hiti og reykur sem mætti mönnum. Slökkvistarfinu lauk á sjötta tímanum.
Sveinn Einarsson, slökkviliðsstjóri í Sandgerði, segir í samtali við Fréttablaðið í morgun að húsið sé töluvert skemmt og telur tjónið hlaupa á milljónum. „Allt sem er yfir tveggja metra hæð í húsinu lítur út fyrir að vera mjög skemmt eða hreinlega ónýtt," hefur Fréttablaðið eftir Sveini.
VFmynd/Hilmar Bragi – Frá vettvangi í fyrrinótt.