Grunur um að köttur hafi innbyrt eiturefni
„Maður er enn hálf dofinn. Það er hræðilegt að sjá dýrin kveljast svona,“ segir eigandi kattarins Olavs í Sandgerði en kötturinn veiktist heiftarlega í gærmorgun og hefur síðan þá dvalið á dýraspítala og er tvísýnt hvort hann muni ná sér. Eigandann grunar að kötturinn hafi innbyrt einhvers konar eitur. Unnið er að því að ná eitrinu úr líkamanum og eru nýrun hætt að starfa sem skyldi.
Í fyrrasumar var fjallað um dularfull kattarhvörf í Sandgerði á RÚV en síðustu tvö árin á undan höfðu margir kettir í Sandgerði drepist eftir skammvinn veikindi eða horfið.
Olav kom heim á seint á þriðjudagskvöld og var orðinn fárveikur næsta morgunn. Að sögn eigandans var hann máttlaus og dró á eftir sér fæturna. „Þá grunaði mig strax að hann hafi innbyrt eitthvert eitur. Svo fékk ég staðfest hjá dýralækni að það getur tekið eitrunina nokkra klukkutíma að koma fram.“ Fái eigandinn staðfest að kettinum hafi vísvitandi verið byrlað eitur mun hann tilkynna málið til lögreglu.
Olav er átta mánaða og mikið fyrir að vera úti á flakki. Eigandi hans segir ljóst að kattareigendur verði að vera á varðbergi. Það geti þó reynst erfitt að treysta á að útikettir verði heppnir þegar hætturnar virðist leynast víða.