Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grunnskólinn í Sandgerði: Pétur segir upp störfum í kjölfar ráðningar nýs skólastjóra
Fimmtudagur 7. júní 2007 kl. 16:13

Grunnskólinn í Sandgerði: Pétur segir upp störfum í kjölfar ráðningar nýs skólastjóra

- gengið framhjá starfandi skólastjóra. Fanney D. Halldórsdóttir ráðin í stöðuna -

Fanney D. Halldórsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Grunnskólans  í Sandgerði, samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar á fundi hennar í gær.  Pétur Brynjarsson sótti einnig um stöðuna en hann hefur gengt henni síðastliðin tvö ár auk þess að hafa verið aðstoðarskólastjóri og kennari við skólann um árabil með 22 ára reynslu að baki. Hann hefur ákveðið að hætta störfum við skólann í kjölfar þessrar ákvörðunar.
Minnihluti bæjarstjórnar lýsir furðu sinni á því að gengið hafi verið fram hjá Pétri við ráðninguna og bendir á stuðningsyfirlýsingu frá nánast öllum kennurum skólans þar sem þess er farið á leit að Pétur verði áfram skólastjóri.

Meirihluti bæjarstjórnar færir þau rök fyrir ráðningunni að rétt sé á þessum tímamótum að gera breytingar á rekstri skólans og vísar í greinargerð frá ráðgjöfum bæjarstjórnar því til staðfestingar. Í þeirri greinargerð mun m.a. hafa komið fram að Fanney hafi meiri framhaldsmenntun á sviði skólastjórnunar og hún hafi mótaðar hugmyndir um leiðir til faglegra úrbóta fyrir skólann.

Í bókun sem bæjarfulltrúar minnihlutans lögðu fram, furða þeir sig á því að gengið hafi verið framhjá Pétri Brynjarssyni í stöðu skólastjóra Grunnskólans í Sandgerði.
„Hann hefur að okkar mati og fjögurra af fimm fulltrúum í skólaráði mun meiri reynslu og hæfileika til að stjórna skólanum. Pétur hefur reynslu af kennslu og stjórnun skólans til fjölda ára og hefur sýnt það s.l. tvö ár að hann er starfi sínu sem skólastjóri vel vaxinn.
Á vormánuðum kom stuðningsyfirlýsing frá nánast öllum kennurum skólans við óbreytt ástand í stjórn skólans þ.e. að Pétur Brynjarsson yrði áfram skólastjóri og Fanney D. Halldórsdóttir aðstoðarskólastjóri. Minnihlutinn harmar það að ekki skuli vera tekið tillit til allra þessara sjónarmiða.
Með þessari ákvörðun er meirihlutinn að raska því jafnvægi í stjórnun og kennslu sem náðst hefur s.l. tvö ár,“ segir í bókun minnihlutans.

Pétur sagðist í samtali við VF í dag hafa ákveðið að hætta störfum við Grunnskóla Sandgerðis.

 

Mynd: Grunnskóli Sandgerðis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024