Grunnskólinn í Sandgerði í baráttu gegn einelti
Grunnskólinn í Sandgerði miðar að því að skapa jákvætt og uppbyggjandi umhverfi þar sem öllum líður vel. Skólinn hefur unnið eftir áætlun Olweusar gegn einelti og andfélagslegri hegðun frá árinu 2002. Áætlunin miðar að því að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun og taka á þesskonar málum er þau koma upp. Allt starfsfólk skólans tekur þátt í vinnunni og leggur sitt af mörkum í að byggja upp félagslega sterkt samfélag þar sem eðlileg jákvæð samskipti fara fram.
Dagana 25. – 29. október ætlum við í Grunnskólanum í Sandgerði að vinna sérstaklega á hverjum degi með verkefni tengd einelti eins og klípusögur, hlutverkaleiki, sólina á skólalóðinni, fylgjast með hvort öðru í frímínútum, vinabekkir hittast og fleira. Í lok vikunnar, föstudaginn 29. október fara allir nemendur skólans í skrúðgöngu þar sem gengið verður ,,Gegn einelti“. Öllum bæjarbúum er velkomið að taka þátt í göngunni með okkur en lagt verður af stað frá skólanum stundvíslega kl. 10.15.
Skólinn einn og sér mun aldrei geta tekið á þeirri vanlíðan sem fylgir því að vera lagður í einelti eða stuðlað að uppbyggingu samfélags þar sem einelti er ekki samþykkt. Hér verða heimilin og samfélagið allt einnig að leggja sitt af mörkum og því leitast Grunnskólinn í Sandgerði eftir því að eiga gott samstarf við sitt nánasta umhverfi og þá sem samfélagið móta.
Einelti er vandamál sem krefst samvinnu allra þessara aðila ef árangur á að nást. Þar sem Olweusaráætlunin tekur til allra nemenda, foreldra og starfsmanna skólans má segja að hún sé ein og sér altæk forvarnarstefna.