Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gróf líkamsárás í Grindavík í kjölfar deilna um Noregsmálið á Facebook
Þriðjudagur 26. júlí 2011 kl. 12:02

Gróf líkamsárás í Grindavík í kjölfar deilna um Noregsmálið á Facebook

Líkamsárás átti sér stað í Grindavík um helgina að því er virðist í kjölfar deilna á samskiptasíðunni facebook sem tengjast fjöldamorðunum í Noregi. Árásin var kærð til lögreglu sem lítur málið alvarlegum augum.

Málið atvikaðist þannig að maður um sextugt sem er fyrrum kennari í Grindavík tjáði sig um árásirnar sem áttu sér stað í Noregi síðastliðinn föstudag á facebook-síðu sinni sem var öllum opin. Maður á fertugsaldri sem samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er fyrrverandi nemandi mannsins, tjáði sig einnig um málið þar sem hann lýsti sig sammála aðgerðum fjöldamorðingjans Anders Behring. Jafnframt viðurkenndi maðurinn að hann væri yfirlýstur nasisti og rasisti. Deilurnar íþyngdust á Facebook- síðunni og þróuðust þannig að árásarmaðurinn hótaði fyrrverandi kennara sínum og fjölskyldu hans.

Um klukkan fjögur aðfaranótt laugardags mætti árásarmaðurinn á heimili fyrrverandi kennara síns í Grindavík sem kom sjálfur til dyra. Að sögn Lögreglunnar á Suðurnesjum sem vinnur nú að rannsókn málsins réðist maðurinn að fyrrverandi kennara sínum og veitti honum áverka í andliti. Hann flúði síðan af vettvangi áður en lögregla mætti á svæðið en var svo handtekinn skömmu síðar á heimili sínu. Fórnarlambið slasaðist ekki alvarlega og leitaði sér aðhlynningar morguninn eftir árásina.

Málið er nú í rannsókn hjá Lögreglunni á Suðurnesjunum sem segist líta málið alvarlegum augum enda hótaði maðurinn kennaranum fyrrverandi lífláti og hafði í hótunum við ýmsa aðra sem tjáðu sig í áðurnefndri facebook-færslu. Lögreglan yfirheyrði ársásarmanninn sem var sleppt að yfirheyrslu lokinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024