Gróðursetning á 900. fundi bæjarráðs
Hann var með heldur óhefðbundnu sniði 900. bæjarráðsfundur Reykjanesbæjar sem fram fór í morgun. Bæjarfulltrúar mættu þá að minnisvarða samkomuhúsins Skjaldar og gróðursettu myndarleg 10 reynitré. Trén voru gróðursett til minningar um þá einstaklinga sem létust í eldsvoða í Skildi. Húsið brann 30. desember árið 1935. Um 180 börn voru í húsinu á jólatrésskemmtun og 4-5 fullorðnir.
Gunnar Þórarinsson formaður bæjarráðs sagði í samtali við Víkurfréttir að með framtakinu væri ekki einungis verið að minnast þeirra sem fórust, heldur líka þeirra fjölmörgu sem lifðu af og hafa síðan tekið virkan þátt í því að byggja samfélagið upp á Suðurnesjum. Reykjanesbær stendur einnig fyrir gróðursetningarátaki og vilja bæjarfulltrúar með þessu beina því til íbúa.
Gunnar hafði einnig á orði að þessi atburður í Skildi hafði á vissan hátt markað tímamót í brunavörnum á svæðinu. Þau mál séu afar mikilvæg og í dag séu þau sem betur fer í góðum farvegi. Gunnar vildi einnig koma á framfæri þökkum til bæjarstarfsmanna sem undirbjuggu gróðursetninguna.
Trén standa fyrir aftan minnisvarðann um brunann árið 1935.
Hjörtur Zakaríusson bæjarritari til tæplega 30 ára gróðursetur hér eitt tréð.