Gróðursæld í Vogunum
Bygginga- og skipulagsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps veitti garðeigendum að Aragerði 16 og Heiðargerði 16 í Vogum, viðurkenningar fyrir fallega og vel hirta garða sl. mánudag. Þórður Kr. Guðmundsson, formaður Bygginga- og skipulagsnefndar, afhenti viðurkenningarskjölin fyrir hönd nefndarinnar.Bentína Jónsdóttir og Halldór Ármannsson fengu viðurkenningu fyrir besta framtakið, en þau keyptu húsið að Aragerði 16 fyrir um ári síðan og hafa unnið hörðum höndum að því að fegra húsið og umhverfi þess. Útkoman er stórglæsileg og í viðurkenningarskyni fengu þau 10 þúsund króna vöruúttekt frá Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ.Þórunn Gottliebsdóttir og Jón Þórðarson, Heiðargerði 16, áttu fegursta garðinn í ár, en þau fengu einnig verðlaun árið 1985. Garðurinn er litríkur og gróinn, en þau hjónin festu kaup á húsinu árið 1980 og byrjuðu skömmu síðar að gróðursetja þar falleg blóm og trjágplöntur. Þórunn og Jón fengu 15 þúsund króna vöruúttekt frá Húsasmiðjunni í viðurkenningarskyni.