Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gróðurhús gæti komið með 125 störf til Grindavíkur
Föstudagur 18. október 2013 kl. 09:11

Gróðurhús gæti komið með 125 störf til Grindavíkur

Gróðurhúsið eins og 20 fótboltavellir að stærð

Hollenska fjárfestingafyrirtækið EsBro hélt á dögunum opinn kynningarfund í Grindavík vegna fyrirhugaðs hátækni tómatagróðurhúss vestur af Grindavík. Gróðurhúsið er engin smá smíði eða 15 hektarar sem lætur nærri að vera 20 fótboltavellir að stærð. Er hér um risa fjárfestingu að ræða eða nokkra milljarða króna. Til stendur að framleiða tómata til útflutnings, aðallega til Bretlands.

Róbert Ragnarsson bæjarstjóri opnaði fundinn og fór yfir stöðu skipulagsmála. Fjölmargir bæjarbúar mættu á fundinn. Starfsemin er í samræmi við aðalskipulag Grindavíkurbæjar, en deiliskipulagsvinna er fyrir höndum. Hollendingarnir hafa sótt um tæplega 28 ha lóð á iðnaðarsvæði I5.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ástæða þess að fyrirtækið lítur til Íslands er græn og ódýr orka, hér er starfsfólk fyrir hendi en talið er að tómatagróðurhúsið veiti um 125 manns atvinnu. Lagði fulltrúi EsBro áherslu á að um spennandi störf væri að ræða í hátækni gróðurhúsum. Grindavík varð fyrir valinu þar sem samgöngur eru góðar og gott aðgengi að orku.

Mikill hugur er í Hollendingunum. Deiliskipulagsvinna fer bráðlega í gang og vilja þeir hefja framleiðslu næsta haust ef allt gengur upp. Í kynningu fyrirtækisins á umhverfisáhrifum gróðurhúsanna kom fram að með þeirri byggingutækni sem þeir ráða yfir muni þeim takast að skerma 95 til 99% ljósmengunar og hún sé því óveruleg. Þá verður ekki kveikt á ljósum í gróðurhúsum allan sólarhringinn því slökkt verður að meðaltali í 6 klukkutíma á hverjum sólarhring. Gert er ráð fyrir að vatn sé endurnýtt og því verði affall lítið sem ekkert frá gróðurhúsinu og það því sjálfbært hvað það varðar.

Líflegar umræður voru að loknum erindunum. Fyrst og fremst var það ljósmengun sem fundargestir spurðu um sem og nálægð við golfvöllinn.

Grindavik.is