Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Grindvískt kennileiti flutt til Reykjanesbæjar í skjóli nætur
Mánudagur 22. september 2008 kl. 16:59

Grindvískt kennileiti flutt til Reykjanesbæjar í skjóli nætur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eitt af hæstu mannvirkjum Grindavíkur, ef frá eru talin fjarskiptamöstur í útjaðri bæjarins, er að kveðja Grindavík og verður í nótt flutt til Reykjanesbæjar. Um er að ræða tvo mjöltanka sem staðið hafa við höfnina í Grindavík. Tankarnir hafa gnæft yfir höfninni en þeir eru nærri 30 metra háir.


Annar tankurinn var tekinn niður í dag. Þrír öflugir kranar voru notaðir við verkið enda tankurinn mikill af vexti og um 90 tonn að þyngd. Verkið var vel undirbúið og gekk vel að leggja tankinn á sérstakan 60 hjóla dráttarvagn.


Þar sem tankurinn er risastór þarf að fara krókaleiðir með hann út úr byggðinni í Grindavík. Farið verður með ströndinni í Grindavík eftir vegi sem notaður var til efnisflutninga í grjótvarnagarða við Grindavíkurhöfn. Þaðan verður farið upp á þjóðveginn og áleiðis að Reykjanesbraut. Hins vegar verður leiðin í Stapafell ekin og þaðan á Hafnaveg. Af Hafnavegi verður farið á Reykjanesbrautina og sem leið liggur út í Helguvík, þar sem tankurinn fær framtíðarheimili.


Tankarnir stóru í Grindavík eru tveir en hinn mun fara sömu leið til Helguvíkur.



Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson