Grindvíkingum tryggð laun
Frumvarp félagsmálaráðherra um launagreiðslur til Grindvíkinga hefur verið samþykkt á Alþingi með öllum greiddum atkvæðum. Frumvarpinu er ætlað að tryggja afkomu Grindvíkinga í þrjá mánuði, afturvirk frá því gripið var til rýmingar Grindavíkur. Lögin taka því gildi frá og með 11. nóvember.
Önnur og þriðja umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi á mánudaginn og að henni lokinni var gengið til atkvæða þar sem allir viðstaddir þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu. Þar er kveðið á um hámarkgreiðslu upp á 633 þúsund krónur til atvinnurekenda, fyrir hvern starfsmann.