Grindvíkingum fækkar um 7,2%
Alls voru 3.454 einstaklingar með skráð lögheimili í Grindavík þann 1. maí síðastliðinn. Íbúum Grindavíkurbæjar fækkar um 266 frá 1. desember 2023, þegar þeir voru 3.720, eða um 7,2%.
Í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 161 íbúa á tímabilinu og voru 23.452 um mánaðamótin. Fjölgunin er upp á 161 einstakling eða 0,7% frá 1. desember. Íbúar Suðurnesjabæjar eru 4.070. Fjölgunin er 34 eða 0,8% á tímabilinu Í Sveitarfélaginu Vogum eru íbúar 1.623 og hefur fjölgað um 57 eða 3,6% frá 1. desember.
Heildaríbúafjöldi á Suðurnesjum var þann 1. maí 32.599 manns og hefur fækkað um fjórtán frá 1. desember. Það segir okkur að fækkunin í Grindavík er ekki að skila sér að fullu í önnur sveitarfélög á Suðurnesjum.