Grindvíkingar vilja upplýsingar fyrr frá Veðurstofunni
Sólný Pálsdóttir, íbúi í Grindavík, talar fyrir munn margra í bæjarfélaginu þegar hún segir skort á næturþjónustu hjá Veðurstofu Íslands. Hún segir of langan tíma líða þar til upplýsingar eru veittar eins og í kröftugu skjálftahrinunni síðustu nótt, aðfaranótt fimmtudags. Sólný hefði viljað fá upplýsingar miklu fyrr frá Veðurstofunni um að ekki væru merki um gosóróa.
„Mér fannst líða rosalega langur tími frá því að stóru skjálftarnir komu og þangað til að ég gat lesið það að það væri ekki gosórói. Ég er ekki að gagnrýna sem slíkt og veit að allir eru að gera sitt besta en upplýsingaflæðið er mjög mikilvægt fyrir okkur þegar maður er að vakna svona upp á nóttunni og er inni í þessari óvissu. Eins og nóttin var þá hristist allt hér og skalf. Í nótt var þetta bara ástand,“ segir Sólný og lýsir óvissuástandinu. Einn sonur hennar var að fylgjast með vefmyndavélinni í Þorbirni. „Við vorum algjörlega sannfærð um að nú væri að fara að gjósa,“ segir hún.
„Ég er auðvitað þakklát öllu þessu fólki sem er að vinna þessa vinnu. Við vissum síðast að það var ekki von á gosi og í gær voru fyrirsagnir um það að líklegast myndi þessu ljúka, samt fór allt á fleygiferð í nótt,“ segir Sólný og vill fá upplýsingar fyrr frá Veðurstofunni þegar atburðir eins og síðustu nótt verða.
Sólný verður í ítarlegu viðtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta sem verður aðgengilegt á vf.is síðdegis á föstudag. Hér að neðan má sjá stutt brot úr þættinum þar sem Sólný ræðir um upplýsingaskortinn.