Grindvíkingar tilbúnir með 2 milljarða ef ríkið staðfestir öryggi í Sparisjóðnum
Bæjarstjórn Grindavíkur samþykkti á aukafundi í hádeginu í dag að hún er tilbúin að færa 2 milljarða króna af fjáramunum bæjarins, sem fengust fyrir sölu á hlut hans í Hitaveitu Suðurnesja, yfir í Sparisjóðinn í Keflavík.
Eins og kom fram á vf.is í gær hafa björgunaraðgerðir vegna Sparisjóðsins staðið yfir að undanförnu og margir aðilar komið að því og eru enn að vinna í málinu. Grindvíkingar eiga 4 milljarða í Landsbankanum eftir sölu á hlut sínum í HS ekki alls fyrir löngu.
Í tillögunni sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn kemur fram að peningarnir verði færðir í Sparisjóðinn um leið og staðfesting hefur borist frá ríkisvaldinu, um að fjármunir séu 100% tryggðir í Sparisjóðnum í Keflavík.
Greinagerð:„Enn vantar skýra yfirlýsingu af hálfu ríkisvaldsins um tryggingu fjármunanna. Grindavíkurbær hefur sótt hart eftir því við fjármálaráðuneytið að fá staðfestingu á því hvort yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að allar innstæður í bönkum og sparisjóðum séu tryggðar nái einnig til sveitarfélaga. Mjög svo óljós svör hafa borist okkur og ávallt vitnað í lögin um tryggingasjóð innstæðna sem einungis tryggir jafnvirði 20.887 EUR á kröfuhafa. Það veldur okkur miklum vonbrigðum að svör ríkisvaldsins skuli ekki vera skýrari og skilji í raun sveitarfélögin eftir í mikilli óvissu með eigið fé.
Loftmynd af Grindavík: Ljósm. Oddgeir Karlsson.