GRINDVÍKINGAR RÁÐA MENNINGARFULLTRÚA
Dr. Guðmundur Emilsson var í gær ráðinn menningarfulltrúi Grindvíkinga en hann mun jafnframt verða skólastjóri Tónlistarskóla Grindavíkur og annast yfirstjórn kirkjutónlistar og störf kantórs. Guðmundur er fjölmenntaður listamaður með víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum og þekktur fyrir störf sín bæði hérlendis og erlendis. Ráðning menningarfulltrúa nú og ráðning ferðamála- og markaðsfulltrúa fyrir skömmu er hluti af markvissri stefnu bæjaryfirvalda að gera Grindavík að fjölskylduvænum bæ sem byggir á sjávarútvegi, ferðaþjónustu og víðtækum uppbyggingarmöguleikum mannlífsins í tengslum við jarðhitasvæðin.