Grindvíkingar duglegir í atvinnurekstri
Fyrirtæki í Grindavík eru flest miðað við höfðatölu, samanborið við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Á meðan tæplega 16 íbúar eru á bak við hvert fyrirtæki í Sveitarfélaginu Garði, eru einungis rúmlega 10 íbúar á bak við hvert fyrirtæki í Grindavík. Að meðaltal eru tæplega 13 íbúar á Suðurnesjum öllum á bak við hvert fyrirtæki sem þar er starfrækt.
Umræðan um atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur verið talsverð og atvinnuleysistölur sýna að þar er langmest atvinnuleysi á landinu öllu. Atvinnuleysi í janúar 2009 var 11,6%, 14,5% í janúar 2010, 14,3% í janúar 2011 og í janúar á þessu ári var það komið niður í 12,5%. Þó eru þær tölur ekki með öllu sambærilegar, enda fóru þeir sem tóku þátt í átakinu „Nám er vinnandi vegur“ af atvinnuleysisskrá um áramót og eins þeir sem áður gátu skráð sig á atvinnuleysisbætur á móti hlutastörfum.
Atvinnuleysi í Grindavík minna en annarsstaða
Þrátt fyrir þetta mikla atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur atvinnuleysi í Grindavík verið mun minna. Í desember var atvinnuleysi í Grindavík 7,1% til samanburðar við 12,8% á Suðurnesjum öllum. Atvinnuleysi þar í bæ mælist hinsvegar 5,7% í janúar á þessu ári.
Þegar skoðaðar eru tölur yfir stofnuð fyrirtæki í sveitarfélögunum kemur í ljós að Grindvíkingar hafa einnig verið duglegri við að stofna fyrirtæki en íbúar nágrannasveitarfélaganna.
Þannig voru nýstofnuð fyrirtæki í Grindavík 5,6% af starfandi fyrirtækjum í bænum á árinu 2011. Næst þeim kom Reykjanesbær, en þar voru nýstofnuð fyrirtæki um 4,4% af öllum starfandi fyrirtækjum. Í Sandgerði var einungis 1 fyrirtæki stofnað, í Garði voru þrjú fyrirtæki stofnuð og tvö í Sveitarfélaginu Vogum.
13,4% íbúa, en reka 14,9% fyrirtækja
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru í heildina rekin 1.808 fyrirtæki á Suðurnesjum öllum á árinu 2011, þar af 269 í Grindavík. Inni í þessum tölum eru reyndar einhver fyrirtæki sem einungis eru starfandi að nafninu til.
Grindvíkingar voru 13,4% íbúa á Suðurnesjum á árinu 2011, en ráku 14,9% af starfandi fyrirtækjum svæðisins. Þetta á sér eflaust ýmsar skýringar, s.s. að sjávarútvegur gengur vel í Grindavík og að brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hefur líkast til haft minni áhrif á atvinnu Grindvíkinga en íbúa hinna sveitarfélaganna.
Grindvíkingar reka 14,4% af öllum einstaklingsfyrirtækjum á Suðurnesjum, en hinsvegar 15,6% af einkahlutafélögum svæðisins. En duglegastir eru þeir í rekstri almenningshlutafélaga, miðað við höfðatölu, en þeir reka 24,2% allra almenningshlutafélaga á Suðurnesjum á árinu 2011.
Fækkar minnst íbúum í Grindavík á milli ára
Ef skoðaðar eru tölur um íbúaþróun kemur einnig í ljós að íbúum Grindavíkur fækkaði hlutfallslega minnst á síðasta ári. Íbúum í Grindavík fækkaði um 0,56% á milli áranna 2010 og 2011. Í öðrum sveitarfélögum var um meiri fækkun að ræða. Þannig fækkaði um 0,85% í Reykjanesbæ, 1,58% í Sandgerði, 4,16% í Sveitarfélaginu Garði og 3,73% í Sveitarfélaginu Vogum.
Ef til viðbótar eru skoðaðar íbúatölur um þróun síðustu ára má sjá að íbúum í Grindavík hefur fjölgað síðan 2008 um 1,51%. Í Reykjanesbæ hefur íbúum frá sama tíma í heildina fjölgað um 3,95%, en fækkun hefur hinsvegar orðið í hinum sveitarfélögunum á þessum fjórum árum. Þannig fækkaði um 3,77% í Sandgerði, 0,55% í Sveitarfélaginu Garði og um 5,69% í Sveitarfélaginu Vogum.
Mbl.is