Grindvíkingar ánægðir með uppbyggingu íþróttamannvirkja
Kostnaður framkvæmda 700-800 milljónir kr.
Fulltrúar aðalstjórnar UMFG lýstu yfir almennri ánægju með fyrirhugaðar framkvæmdir á íþróttasvæði félagsins. Gunnlaugur Hreinsson, Sigurður Enoksson og Valgerður Jennýjardóttir fulltrúar aðalstjórnar UMFG mættu á fund bæjarráðs ásamt Guðmundi Bragasyni sem tilnefndur var fulltrúi deilda UMFG á fundi þeirra í janúar. Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar.
Guðmundur Bragason las upp bréf frá formanni knattspyrnudeildar UMFG og kynnti sjónarmið körfuknattleiksdeildar UMFG. Jafnframt fór hann yfir tímaáætlun sem hann vann um núverandi tímanotkun körfuknattleiksdeildarinnar og til framtíðar.
Fram kemur í bókun B-, G- og S-lista að bæjarráð þakkar deildum UMFG fyrir þær athugasemdir er fram komu á bæjarráðsfundi þann 15. janúar. Tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda líkt og kostur var. Eftir standa annars vegar athugasemd knattspyrnudeildar um að þeirra aðstaða eigi að vera við Hópið en ekki í sameiginlegri aðstöðu allra deilda UMFG og hins vegar ósk körfuknattleiksdeildar um að byggt verði nýtt íþróttahús er rúmar þrjá æfingasali og sé með löglegum keppnisvelli. Varðandi ósk knattspyrnudeildar vill bæjarráð vekja athygli á því að eitt af markmiðum bæjarstjórnar er samþykkt var þann 28. september 2011 var að sameina íþróttasvæðið í eina félagsaðstöðu en þó er gert ráð fyrir uppbyggingu á salernisaðstöðu og aðstöðu til veitingasölu við Hópið.
Varðandi ósk körfuknattleiksdeildar þá er vert að benda á að sú ósk kom einnig fram snemma árs 2012 og var könnuð. Niðurstaðan þá var að byggja ekki nýtt stórt íþróttahús bæði vegna kostnaðar við uppbyggingu sem og rekstur. Niðurstaðan er sú sama núna. Vert er þó að benda á að í framtíðinni er mjög líklegt að þörf sé á að byggja nýtt íþróttahús og þá þarf að vega og meta hvort betra sé að hafa það við grunnskólann Ásabraut eða við íþróttasvæðið.
Bæjarráð benti á að nú er í fyrsta sinn mörkuð stefna og framkvæmdaáætlun til uppbyggingar íþróttamannvirkja. Samþykkt hefur verið tímasett og fjármögnuð áætlun um uppbyggingu á íþróttasvæðinu næstu fjögur ár. Gert er ráð fyrir því að kostnaðurinn verði 700-800 milljónir króna. Þessi uppbygging er til að mæta brýnustu þörf þeirra er nýta íþróttasvæðið (grunnskóli, deildir UMFG, aðrir iðkendur, almenningur og starfsfólk). Þeirri uppbyggingu verður lokið 2016. Jafnframt er unnið að deiliskipulagi svæðisins sem veitir svigrúm fyrir frekari uppbyggingu til lengri framtíðar. Auk þess er nú unnið að frumhönnun sundlaugarsvæðis, en ljóst er að nauðsynlegt er að hefjast handa við endurbætur á sundlaugarsvæði innan fárra ára.
Bæjarráð samþykkir því að halda áfram uppbyggingu á íþróttasvæðinu í samræmi við tillögu nefndar um skipulag og uppbyggingu mannvirkja til næstu ára, sem kynnt var í janúar 2012.