Grindvíkingar á saltfiskhátíð í Ilhavo í Portúgal
Dagana 17.-21. ágúst næstkomandi fer fram glæsileg saltfiskhátíð í bænum Ilhavo í Portúgal. Sérstakur Íslandsdagur verður þann 19. ágúst en Ísland fékk boð á hátíðina vegna vinabæjartengsla Grindavíkur og Ilhavo.
Fjórir fulltrúar Grindavíkur muna heimsækja Ilhavo af þessu tilefni, en það eru þau Róbert Ragnarsson bæjarstjóri, Sigurður Arnar Kristmundsson hafnarstjóri, Kristín María Birgisdóttir forseti bæjarstjórnar og Hjálmar Hallgrímsson formaður bæjarráðs. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar. Þá mun Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, einnig vera gestur hátíðarinnar.
Saltfiskhátíðin í Ilhavo í Portúgal er sú stærsta sinnar tegundar þar í landi. Búist er við rúmlega 200.000 gestum á hátíðina þá fimm daga sem hún stendur yfir. Íslandi hlotnast sá heiður að vera með á hátíðinni í ár og skipuleggur Íslandsstofa þátttökuna.
Hjá Íslandsstofu hefur verið í gangi markaðsverkefni frá árinu 2013 sem gengur út á að kynna saltaðar þorskafurðir á Spáni, Portúgal og Ítalíu undir slagorðinu „Prófaðu og deildu leyndarmáli íslenska þorsksins“ en 23 fyrirtæki eru þátttakendur í verkefninu.
„Markmið þess verkefnis er að treysta stöðu saltaðra þorskafurða í Suður Evrópu og í Portúgal er það Lissabon og svæðið norður af borginni sem er áherslumarkaður fyrir íslenska saltfiskinn,“ segir Guðný Káradóttir, forstöðumaður sviðs matvæla, sjávarútvegs og landbúnaðar hjá Íslandsstofu.
Íslandi er boðin þátttaka í hátíðinni á grundvelli vinabæjartengsla Ilhavo og Grindavíkur. Auk kynningar á íslenskum þorskafurðum (saltfiski) verður lögð áhersla á að kynna íslenska menningu, nýsköpun og Ísland sem áfangastað ferðamanna.