Grindvíkingar 4000 innan fárra ára
Íbúafjöldi í Grindavík mun líklega stóraukast á næstu árum, en uppbygging í bænum er afar mikil þar sem nýtt hverfi, Hópshverfi, er óðum að taka á sig mynd.
Nú þegar eru 187 íbúðir í byggingu og í maí verður lóðum undir 230 íbúðir úthlutað í næstu tveimur hlutum hverfisins þannig að gera má ráð fyrir því að íbúar bæjarins verði orðnir um 4000 innan fárra ára.
Undanfarin ár hefur verið stöðug fjölgun í Grindvíkurbæ, en síðasta ár stóð upp úr þar sem íbúar fóru úr 2481 upp í 2624 á milli áranna 2004 og 2005.
Til að hraða uppbyggingu í bænum hafa bæjaryfirvöld gengið frá viljayfirlýsingu við verktakafyrirtækin Heimi og Þorgeir hf og Grindina ehf um að þeir taki að sér ákveðin svæði á nýja svæðinu í alverktöku og sjá um alla uppbyggingu í hverfinu þ.e. gatnagerð, gangstéttir, malbikun, lýsingu o. fl. auk þess að byggja og selja íbúðir.
„Það hefur verið stöðug og þægileg fjölgun hjá okkur síðustu ár, en í fyrra varð algjör sprenging,“ sagði Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri, í samtali við Víkurfréttir. „Við stefndum kannski ekki beint að svo örri fjölgun, en við teljum að breytingar á fasteignamarkaði á Höfuðborgarsvæðinu að undanförnu hafi haft þessa miklu fjölgun í för með sér.“
Auk landvinninga í norðurátt hefur nefnd á vegum bæjarins unnið að deiliskipulagstillögu í elsta bæjarhlutanum. Þar er gert ráð fyrir að byggja upp svæðið austan Víkurbrautar og að Þrótti ehf. í anda liðins tíma. Tillögurnar gera ráð fyrir 12 nýjum einbýlishúsum á einni til tveimur hæðum í gamaldags byggingarstíl klædd bárujárni eða timbri. Einnig gera tillögurnar ráð fyrir hellulögðum götum og gamaldags götulýsingu. Þessar tillögur hafa enn ekki verið samþykktar, en beðið er samþykkis frá nokkrum húseigendum á svæðinu.
Þá mikil eftirspurn hafi verið eftir íbúðarlóðum er einnig töluverð ásókn í lóðir undir atvinnuhúsnæði og er því nýhafin vinna við að skipuleggja fleiri lóðir undir atvinnustarfsemi á svæðinu austanmegin við Grindavíkurhöfn. Þessar lóðir verða tilbúnar til úthlutunar í júlí og nýlega hefur verið úthlutað fjórum lóðum undir iðnaðarhúsnæði.
Ólafur Örn segir að bæjaryfirvöld séu vel í stakk búin til að taka við aukinni eftirspurn á atvinnuhúsnæði. „Við höfum líka verið að styrkja nýsköpun í atvinnulífi bæjarins og má þar nefna parketframleiðandann Geo-Plank sem gengur vel. Annars erum við opnir fyrir öllum þeim fyrirtækjum sem vilja koma til okkar og eigum nóg af landi og lóðum. Við verðum tilbúin með slíkt eftir því sem þörfin kallar á.“
Fyrir utan íbúða- og atvinnuhúsnæði er gert ráð fyrir aukinni þjónustu í nýja hverfinu þar sem m.a. verður nýr grunnskóli. Eins og Grindvíkingar vita hefur gamli grunnskólinn fyrir löngu sprengt húsnæðið utan af sér og fjölgaði nemendum við skólann um 50 á síðasta skólaári. Ef fram fer sem horfir mun börnum á grunnskólaaldri í Grindavík fjölga um 250 á allra næstu árum þannig að Grindvíkingum er ekki til setunnar boðið og mun undirbúningur hefjast á árinu.
Leikskólarnir í bænum hafa einnig verið þéttsetnir en nýtt og glæsilegt húsnæði leikskólans Lautar þar sem verða fjórar deildir verður opnað á næstu vikum.
Íþróttalífið í Grindvík stendur í miklum blóma sem endranær og er nú unnið að enn frekari framþróun á þeim vettvangi. Nýtt deiliskipulag íþróttasvæða verður kynnt á næstu mánuðum þar sem ber hæst byggingu á fjölnota íþróttahúsi sem gerir knattspyrnufólki kleift að æfa við toppaðstæður allan ársins hring.
Þá er einnig mikil vakning meðal hestamanna á svæðinu. Þegar hefur tveimur hesthúsalóðum verið úthlutað norðan við núverandi hverfi og bráðlega hefjast framkvæmdir við nýjan reiðveg. Þá er líklegt að reiðhöll og fjögur ný hesthús rísi fyrir lok árs.
„Ég er að vonast til þess að deiliskipulagið verði tilbúið sem fyrst, en það er grundvöllurinn fyrir öflugu íþróttastarfi eins og er hér í bænum,“ segir Ólafur. „Það er lagt mikið upp úr íþróttum í Grindavík þar sem bærinn reynir að styðja afreksfólkið af fremsta megni. Hins vegar eru það auðvitað einstaklingar hér í bænum sem bera fyrst og fremst hitann og þungann af starfinu.“
Framtíðin virðist björt hjá Grindavík sem vex og dafnar af miklum móð og segir Ólafur að mikils sé að vænta í framtíðinni.
„Það er margt sem nýir bæjarbúar sækja í hjá okkur og það virðist sem það sé heildarmyndin sem kallar á. Það er atvinnuástandið, íþróttalífið, gott orðspor bæjarins, og ódýrt húsnæði og byggingarkostnaður auk góðra samgangna. Það virðist sem fólk á Höfuðborgarsvæðinu sé orðið þreytt á umferðinni þar og sér að það er ekki mikið lengur að keyra í vinnuna frá Grindavík heldur en t.d. frá Mosfellsbæ og Kjalarnesi.
Það virðist vera hagkvæm stærð að hafa fólksfjölda um 4000 manns þar sem það á vel við tvo grunnskóla og tvo til þrjá leikskóla. Sú hagkvæmni er það sem við stefnum að og okkur sýnist það geta orðið að veruleika innan nokkurra ára.“