Grindavíkurvegur einbreiður í gegnum varnargarð
Opnað var fyrir umferð um Grindavíkurveg fyrir íbúa Grindavíkur og viðbragðsaðila fyrir jól. Vegurinn er einbreiður í gegnum varnargarða og bílar sem koma frá Grindavík eru í rétti. Vegfarendur eru beðnir um að aka varlega og virða allar merkingar.
Vegagerðin setti upp nýjar merkingar á Grindavíkurvegi þegar hann var opnaður skömmu fyrir jól. Þar sem varnargarður nær inn á veginn er hann á kafla einbreiður. Þar hefur hámarkshraði verið lækkaður í 60 km/klst. Að svo stöddu verður varnargarðurinn ekki fjarlægður af veginum en það verður tekið til endurskoðunar á næstu dögum.
Þá var unnið að lagfæringum á Nesvegi þar sem holur hafa myndast á kaflanum við kirkjugarðinn og golfvöllinn en miklar skemmdir urðu á þessum kafla í jarðskjálftunum.
Framkvæmdir á Suðurstrandarvegi við Festarfjall
Vegagerðin vinnur að lagfæringu og styrkingu á Suðurstrandarvegi við Festarfjall á um 800 metra kafla. Unnið er að því að setja efni utan á vegfláa að sunnanverðu til að styrkja veginn. Einnig verður ræsi sem liggur í gegnum veginn lengt í báðar áttir. Verkið er hálfnað og áætlað að því ljúki í lok janúar 2024, ef veður leyfir.
Áður var búið að hliðra veginum um 1,5 metra og færa nær fjallinu á umræddum kafla. Var það gert til að auka umferðaröryggi vegfarenda. Vegfláinn hreyfðist til og seig í jarðskjálftunum sem urðu áður en gos hófst í Fagradalsfjalli 2021.
Til útskýringar þá er vegflái aflíðandi hlið vegar.