Grindavíkurlistinn úr bæjarstjórn
Listi Grindvíkinga hlaut ekki kosningu í bæjarstjórn Grindavíkur í ár og verður því enginn fulltrúi flokksins í bæjarmálum Grindavíkur þetta kjörtímabil. Kristín María Birgisdóttir, oddviti flokksins segir á Facebook- síðu sinni að flokkurinn hafi verið stofnaður árið 2010, en þá hafi verið mikil ólga í stjórnmálum og illa hafi gengið að halda saman meirihlutum í Grindavík. „Við höfðum miklar skoðanir og um leið fannst okkur umræðan um Grindavík ekki vera nægilega jákvæð. Þessu vildum við breyta. Við héldum kynningarfund og buðum öllum sem áhuga höfðu að borðinu. Við héldum síðan stofnfund, bjuggum til samþykktir, mynduðum stjórn til bráðabirgða og hentum okkur út í djúpu laugina,“ segir Kristín María í færslu sinni á Facebook.
Grindavíkurlistinn átti tvo bæjarfulltrúa árið 2010-2014 og var hann bæði starfandi í meirihluta og minnihluta það tímabil. Árið 2014-2018 var Kristín María bæjarfulltrúi í meirihluta með Sjálfstæðisflokki. Kristín María segir að þetta hafi verið mjög gefandi vegferð og hafi hún allan þennan tíma brunnið fyrir sveitarstjórnarmálin. „Þetta hefur sannarlega ekki alltaf verið auðvelt og stundum hræða stjórnmálin því umræðan í kringum þau eru oft óvægin.“
Að lokum segir Kristín María, „Stjórnmál" eða „pólitík" hafa haft á sér neikvæðan stimpil. Fólk tekur það oft fram hátt og skýrt að það hafi engan áhuga á pólitík. Engu að síður er fullt af fólki sem tilbúið er að taka sæti á lista og leggja sig fram við að vinna samfélaginu sínu gagn. Fyrir það ber að þakka. Við sem viljum taka þátt í sveitarstjórnarmálum erum að vinna að samfélagsmálum. Við höfum líklega flest áhuga á því hvort börn komist á leikskóla eða hvort þjónustan sé viðunandi. Ég er þakklát fyrir það hversu mikill áhugi á þátttöku er orðinn. Það er nefnilega gaman í pólitík.“