Grindavíkurkirkja fær andlitslyftingu
Undanfarnar vikur hefur Grindavíkurkirkja fengið andlitslyftingu. Gert hefur verið við múrskemmdir og kirkjan máluð, aðallega í marmarahvítu. Þar sem áður var grænt hefur verið málað í gráu og hefur svipur kirkjunnar breyst nokkuð við það. Enn á eftir að klára kirkjuturninn og verður nokkur bið á því að það verði gert.
Að sögn Birnu Bjarnadóttur kirkjuvarðar er verið að gera við kirkjuklukkurnar þrjár sem Lions gaf á sínum tíma. Þyngsta klukkan, sem notuð er við útfarir, á það til að stoppa. Festingar eru ryðgaðar og verða þær sandblásnar og lagaðar. Um leið og kirkjuklukkurnar koma úr viðgerð verður lokið við að mála kirkjuturninn.