Grindavíkurhöfn með landfræðilega yfirburði
Grindavíkurhöfn hefur gríðarlega möguleika til frekari vaxtar og töluvert forskot á margar aðrar hafnir m.a. með teknu tilliti til staðsetningar. Þetta eru niðurstöður skipulagsgreingar sem Verkfræðistofan Efla vann fyrir höfnina. Þá kemur fram að til lengri tíma litið og með frekari uppbyggingu innviða yrðu áform um orkuskipti í siglingum möguleg, þar sem skemmtiferða-, flutninga- og fiskiskip gætu samnýtt hafnarinnviði s.s. bryggjur, þekjur og landtengingar. Slíkt yrði stórt skref í átt að grænni hafnaruppbyggingu í samræmi við bæði innlenda og alþjóðlega loftslagsstefnu.
Grindavíkurhöfn hefur ákveðið samkeppnisforskot á aðrar hafnir vegna staðsetningar sinnar, þar sem hún er nálægt fiskimiðum í Norður-Atlantshafi, umkringd vaxandi atvinnurekstri (t.d. útgerð og annarri virðisaukandi framleiðslu), með stuttum siglingatímum til úthafs, staðsett á aðalleið sjóflutninga til og frá Evrópu og staðsett á aðalleið skemmtiferðaskipa til Íslands. Vegna þessarar samkeppnisstöðu hefur hafnarnotendum (svæðisbundnum, innlendum og alþjóðlegum) fjölgað.
Uppbygging fiskeldis á landi mun auka farmflæði um höfnina enn frekar. Þessi aukning á markaðshlutdeild leiðir til aukningar í gámaflutningum með vörubílum á landi og farmflæðis um höfnina sjóleiðis. Jafnframt nýtur höfnin góðs af ferðamannastarfseminni á Suðvesturlandi.
Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar segir að til þess að hægt verði að nýta framtíðarmöguleikana þurfi töluverð uppbygging að eiga sér stað til að anna umferð og umsvifum. „Uppbygging hafna er mjög háð eftirspurn hagsmunaaðila. Aukin umsvif útgerða og fiskeldis á landi annars vegar og tækifæri til að hefja þjónustu við skemmtiferðaskipa hins vegar kallar á bætta innviði á ýmsum skipulagssviðum sveitarfélagsins. Á hinn bóginn stólar árangur fiskiðnaðar, fiskeldis og ferðaþjónustu á vel starfhæfa, skilvirka og fjölhæfa höfn ”.
Sigurður segir höfnina nú þegar komna að þolmörkum og keyri nálægt hámarks afkastagetu á álagstímum. Áfangaskipta þurfi uppbyggingu því mikilvægt sé að hámarka afrakstur fjárfestinga og rétt tímasetning skipti öllu máli.
Helstu forgangsatriði fyrsta áfanga eru að yfirvinna áskoranir sem lúta að öryggi í siglingum inn og út frá höfninni ásamt almennu öryggi á hafnarsvæðum. Hafnabætur í fyrsta áfanga munu skila sér strax til núverandi viðskiptavina hafnarinnar samhliða því að fjölhæfni hafnarinnar eykst með því að mæta framtíðar þörfum fyrir stærri skip og tíðari komur fiskiskipa, flutningaskipa og minni skemmtiferðaskipa yfir sumartíma.
„Markmið fyrsta áfanga snýr mest að því að auka öryggi og fækka frátöfum vegna óhagstæðar skilyrða af völdum veðurfars og um leið og að gæta að því að sjálf höfnin glati ekki þeim frábæra eiginleika sem hún hefur, sem er kyrrðin innan hafnar en það er eitt helsta sérkenni hennar að mati margra skipstjóra“ segir Sigurður. Þessi styrkleiki hafnarinnar komi til vegna vel heppnaðra og umfangsmikilla hafnabóta um síðustu aldamót. Með þeim framkvæmdum hafi nánast allt sog verið úr sögunni.
Fyrsti áfangi miðar að því að taka á móti skipum allt að 140 m -160 m löngum. Til þess það geti gerst þarf m.a. að minnka öldudrifnastrauma í innsiglingu og skýla henni fyrir SV öldu, sem er ríkjandi ölduátt, með gerð brimvarnagarðs eða garða og breikkun ytri- og innri innsiglingar og að auka snúnigsrými innan hafnar sem er megin verkefni 1. áfanga.
Annar áfangi er uppbygging til lengri tíma og myndi hefjast á næstu 10 árum. Hann fæli í sér landfyllingu austan við Miðgarð og framlenging á kanti til austurs. Uppbygging yrði á 300 metra viðlegukanti með 8 metra dýpi. „Þetta miðar að því að mæta framtíðarþörfum hafnarnotenda og þá einkum möguleikanum á vörugeymslu sem og auknum umsvifum í fiskvinnslu, pökkun o.fl. tengt hafnsækinni starfsemi. Auk þess að taka á móti auknum fjölda fiskiskipa sem og fleiri skemmtiferðaskipum“ segir Sigurður.
Þriðji og síðasti áfanginn er til lengri tíma og myndi ekki hefjast fyrr en á næstu 20 árum eða milli 2024-2050. Nýtt athafnasvæði yrði í suðausturhluta núverandi hafnar. Þar yrði uppbygging 310 metra + 180 metra viðlegukants með 8 metra dýpi. Snúningsrými í höfn stækkað í a.m.k. 270 metra. „Þessi uppbygging miðar að því að nýta framtíðartækifæri sem gætu skapast í hafnsækinni starfsemi á svæðinu t.d. uppbygging fiskifóðurverksmiðju, vöruhús fyrir almennan farm og til að rúma stærri fiskiskip og meðalstór skemmtigerðaskip sem eru 160-180 metrar.
Sigurður Kristmundsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar.