Grindavíkurgatnamótum lokið fyrir Ljósanótt
Eitt stærsta verkefnið í lokafrágangi tvöföldunar Reykjanesbrautar eru gatnamótin við Grindavíkurveg. Gert er ráð fyrir að lokið verði við gatnamótin seint í ágúst eða byrjun september, eða fyrir Ljósanótt í Reykjanesbæ.
Umferð var hleypt á mislæg gatnamót við Vogaafleggjara í síðustu viku og við það lengdist tvöfaldi kafli brautarinnar um tvo og hálfan kílómetra.
Þá er vinna hafin við að steypa stöpla undir síðustu brúna sem er við Innri-Njarðvík. Mannvirkið verður tilbúið í október ef allt verður á áætlun og er eini kaflinn sem eftir er að tvöfalda vegaspottinn milli Áslands í Hafnarfirði og Hvassahrauns vestan við álverið í Straumsvík, segir í frétt á Visir.is.
Mynd: Séð yfir mislæg gatnamót við Grindavíkurveg. Víkurfréttamynd: Ellert Grétarsson