Grindavíkurbær tryggir öllum vinnu í sumar
Grindavíkurbær mun tryggja öllum þeim sem sóttu um sumarstarf hjá sveitarfélaginu fyrir 7. maí sl. vinnu í sumar, óháð aldri, fyrri störfum eða stöðu í námi. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs Grindavíkurbæjar þann 12. maí og sagt er frá þessu á vef bæjarins nú í morgun.
Alls verða því til um 50 ný störf á vegum sveitarfélagsins, flest í nýjum umhverfishópi þjónustumiðstöðvar en einnig störf sem snúa að stjórnsýslu og beinni þjónustu við bæjarbúa, velferð þeirra og vellíðan.
Störfin voru auglýst 24. apríl og var umsóknarfrestur til og með 7. maí. Einhverjir hafa þegar hafið störf en flestir munu mæta til vinnu á mánudaginn og starfa fram í miðjan ágúst.
Við þetta bætist að um 140 nemendur hafa skráð sig í Vinnuskóla Grindavíkurbæjar í sumar sem er 35% fjölgun frá fyrra sumri.
Áætlað er að kostnaður við þetta átak Grindavíkurbæjar nemi um 122 milljónum króna.