Grindavíkurbær fer fram á bætur
Grindavíkurbær hyggst fara fram á bætur vegna mistaka sem urðu við mælingu á hæð lóðar við byggingu nýs skóla í bæjarfélaginu. Málið kom fyrir bæjarráð í gær þar sem tekið var undir þau sjónarmið byggingarnefndar að þeir sem valdir eru að þessum mistökum greiði þann kostnaðarauka sem af þeim hljótast. Hann nemur alls 5,5 milljónum króna, að því er fram kemur í fundargerð bæjarráðs.
„Bæjarráð vill minna á mikilvægi þess að vel sé vandað til allra verkþátta er verið er að framkvæma hjá bæjarfélaginu. Ennfremur vill bæjarráð enn og aftur benda á mikilvægi þess verkeftirlits sem þarf að vera með opinberum framkvæmdum og vísar þar til faglegs eftirlits Verksýnar á Hópsskóla,“ segir í fundargerð bæjarráðs.
---
Mynd/www.grindavik.is - Hópsskóli er í byggingu. Eitthvað mun mönnum hafa skjöplast við mælingar á lóðinni.