Grindavík: Vilja torfæruhjólin af göngustígunum
Bæjarráð Grindavíkur beinir því til Húsnæðis- skipulags- og bygginganefndar að fundið verði svæði í sveitarfélginu fyrir akstur torfærutækja. Jafnframt er nefndin beðin um að koma með tillögur um staðsetningu á hindrunum og þrengingum í því skyni að koma í veg fyrir akstur torfæruhjóla á göngustígum bæjarins en nokkuð hefur borið á því að undanförnu.
Bæjarráð beinir því til lögreglunnar á svæðinu að gera átak í að stöðva óskráð tæki og akstur barna og unglinga á torfærutækjum í sveitarfélaginu, að því er fram kemur í fundargerð.
Nokkuð hefur borið á utanvegaakstri torfærutækja í Reykjanesfólkvangi og landi Grindavíkur. Talsmenn aksturíþrótta af þessum toga hafa bent á að ekki verði komið í veg fyrir, eða dregið úr slíku háttarlagi fyrr en sérstök svæði verði skilgreind undir þetta sívaxandi tómstundagaman.
Mynd/elg: Utanvegaakstur við Djúpavatn á Reykjanesskaga.