Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grindavík verður opnuð kl. 6 á mánudagsmorgun
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 16. október 2024 kl. 14:30

Grindavík verður opnuð kl. 6 á mánudagsmorgun

„Þetta er jákvætt skref fyrir Grindavík, engin spurning en hvort litið verði á 21. október sem þjóðhátíðardag Grindavíkur er of snemmt að segja til um,“ segir formaður Grindavíkurnefndarinnar svokölluðu, Árni Þór Sigurðsson. Nefndin hélt blaðamannafund í tollhúsinu í Reykjavík og fór Árni yfir það sem hefur verið gert og hvað er framundan.

Árni er vongóður um að bjartari tímar séu framundan í Grindavík og fyrir Grindvíkinga.

„Þetta er gleðidagur myndi ég segja, það er gott að geta opnað bæinn og gefa fjölmörgum grindvískum fyrirtækjum í bænum súrefni. Þetta rennir styrkari stoðum undir atvinnulífið og samfélagið í Grindavík en að sjálfsögðu verðum við á vaktinni gagnvart náttúrunni áfram. Við mælumst ekki með því að börn verði ein að leik og hvort lögreglustjórinn á Suðurnesjum mun hætta að mælast gegn því að fólk gisti í Grindavík, get ég ekki svarað fyrir.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafrænt eftirlit verður með umferð í Grindavík en lokunarpóstar verða ekki alveg afnumdir.

„Starfsfólk á lokunarpóstum mun ekki áfram verða á vaktinni 24/7 heldur einnig sinna eftirliti inni í Grindavík, það er greinilega þörf á því og ef hættustigið breytist þá verðum við að vera viðbúin að bregðast við og rýma. Það var einmitt eitt af verkefnunum að undanförnu, að fylla upp í sprungur og gera allar flóttaleiðir út úr bænum öruggar og því er lokið og nú horfum við bara björt fram á veginn,“ segir Árni.

Skóla- og leikskólahald bar á góma í kynningu Árna.

„Bæjarstjórn Grindavíkur var búin að gefa út að ekkert skólahald verði á þessu skólaári en hvort möguleiki verði á að hefja það næsta haust er of snemmt að segja til um á þessum tímapunkti. Ákvörðunin fyrir þetta skólaár var tekin í apríl, það er hálft ár fram í næsta apríl og við skulum sjá hvernig staðan verður þá.

Það er búið að vera fróðlegt að starfa í þessari Grindavíkurnefnd, við renndum algerlega blint í sjóinn og þetta er búið að vera krefjandi en líka mjög áhugavert, fyrir mig persónulega hefur þetta verið frábært tækifæri, að kynnast þessu öfluga samfélagi sem Grindavík er. Ég hlakka til að styðja við bakið á Grindvíkingum næstu tvö árin hið minnsta,“ sagði Árni að lokum.