Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grindavík verður lokuð næstu þrjár vikur - óheimilt að dvelja og atvinnustarfsemi bönnuð
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 13. janúar 2024 kl. 16:57

Grindavík verður lokuð næstu þrjár vikur - óheimilt að dvelja og atvinnustarfsemi bönnuð

Dvöl í Grindavík þykir nú óásættanleg að mati Almannavarnra og hefur verið bönnuð. Öllum hefur verið fyrirskipað að yfirgefa Grindavík fyrir klukkan 19 á mánudag, 15. janúar. Einnig verður öll atvinnustarfsemi þar bönnuð. Gildistími þessarar ákvörðunar er í þrjár vikur.

Þetta kom fram á fundi Almannavarnarnefndar í dag.

Unnið er að því að rannsaka sprungurnar en þessi ákvörðun ætti að auka öryggi og minnka óvissu að sögn Víðis Reynissonar. Í máli Víðis kom fram að mikil hætta sé í kringum sprungurnar og þeim hefur fjölgað. Síðast í dag sáust nýjar sprungur. Aðstæður í Grindvík séu fordæmalausar og hætta á skyndilegri opnun á sprungum í eða við bæinn hafi aukist.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Okkar markmið núna er að tryggja öryggi Grindvíkinga. Von okkar er þó sú að þeir geti haldið heim með tíð og tíma, vonandi í sumar eða haust,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra. Hún hvatti fólk til þess að kynna sér nýjustu upplýsingar á heimasíðu Almannavarna, almannavarnir.is

Þeir sem dvelja nú í Grindavík eru hvattir til að hringja í síma 1717 og tilkynna brottflutning og nýjan dvalarstað. Í samvinnu við Rauða krossinn eru skammtímaúrræði í undirbúningi fyrir þá sem eru í vandræðum með dvalarstað. Allt verði gert til að útvega Grindvíkingum öruggt húsaskjól til skamms tíma.