Grindavík slapp vel í óveðri
Grindvíkingar sluppu vel í óveðrinu í gærkvöldi. Björgunarsveitin Þorbjörn fékk þrjú útköll innanbæjar og þá sá björgunarsveitarfólk um að loka Grindavíkurvegi og Suðurstrandarvegi.
Félagar í Þorbirni hafa verið nokkuð oft á Suðurstrandarvegi undanfarna daga vegna ófærðar. Vegurinn er ruddur þrisvar í viku og þar hefur færð náð að spillast nokkuð reglulega vegna skafrennings og ofankomu.
Þannig fór Þorbjörn í sjúkraflutning frá Krísuvík um helgina. Otti Rafn Sigmarsson, formaður björgunarsveitarinnar sagði að þá hafi verið margra kílómetra skafl eftir Suðurstandarvegi þar sem ekki sást í stikur með veginum.