GRINDAVÍK SÍÐDEGIS Í GÆR:STÓRBÆTT INNSIGLING OG GÍFURLEG UPPSVEIFLA
Dýpkunarframkvæmd við höfnina Grindavík lauk þann 20. ágúst. Svæðið var að mestu leyti klöpp og því þurfti að sprengja og 200.000 rúmmetrar af efni voru fjarlægðir úr höfninni. Búin var til 500 metra löng renna, 70 metra breið og 9,5 metrar að dýpt, samtals var 33.500 fm svæði dýpkað. ,,Tilboðsverkið hljóðaði uppá 400 milljónir króna og kostnaðaráætlanir stóðust”, sagði Einar Njálsson bæjarstjóri. ,,Gamla siglingaleiðin gat tekið skip sem ristu 4-5 metra á fjöru en nú komast skip sem rista 7 metra. Það þýðir að nú er hægt að taka á móti öllum fiski- og flutningaskipum en ef þau eru lengri en 95 metrar þá þarf sérstakar tilfæringar.” Hefur þessi breyting ekki mikla þýðingur fyrir bæjarfélagið? ,,Gífurlega mikla. Nú getum við tekið við loðnuskipum og flutningaskipum og við sjáum fram á að það auki tekjur hafnarsjóðs. Þessi breyting mun hugsanlega hafa mjög góð áhrif á atvinnulífið og nú þegar eru ýmsir aðilar að skoða möguleika á atvinnustarfsemi hér. Auknir flutningar sjóleiðis munu jafnvel létta töluvert af flutningum á Reykjanesbrautinni, en engar niðurstöður liggja fyrir enn. Róbert Ragnarsson ferða- og atvinnumálafulltrúi sér um að markaðssetja höfnina og kynna þessa nýju innsiglingarleið, því hér er mjög góð þjónusta fyrir skip.” Hefurðu orðið var við aukna eftirspurn eftir húsnæði að undaförnu? ,,Já, ég get ekki sagt annað. Búið er að úthluta 20 byggingarlóðum og miklar framkvæmdir að fara í gang. Það má segja að það sé gífurleg uppsveifla í Grindavík þessa dagana”, sagði Einar Njálsson að lokum.Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ávarpaði Grindvíkinga í gærdag þegar lokum dýpkunarframkvæmda var formlega fagnað.