Grindavík: Rausnarlegar viðbótargreiðslur til starfsfólks bæjarins
Bæjarstjórn Grindavíkur ákvað á síðasta fundi sínum að umbuna starfsfólki sínu fyrir tryggð og velvilja, eins og segir í bókun meirihluta, með starfsaldurstengum viðbótargreiðslum allt að 200.000 krónum.
Upphæðin miðast við starfsaldur fólks í fullu, föstu starfi hjá bænum og er sem hér segir:
5-9 ára „ 70.000
10-14 ára „ 100.000
15-19 ára „ 150.000
20-24 ára „ 200.000
25-29 ára „ 200.000
30-34 ára „ 200.000
Auk þess mun allt fastráðið starfsfólk Grindavíkurbæjar með fjögurra ára reynslu eða minna fá eingreiðslu að upphæð kr.
50.000.
Starfsfólk fær greiðslunua þann 1. apríl nk. En næsta starfsaldurstengda greiðsla verður þann 1. september 2009 og verður eftir það 1. september ár hvert.
Auk þess samþykkti bæjarstjórn að styrkja starfsfólk til líkamsræktar með mótframlagi vegna árgjalds í líkamsrækt. Þar verður um að ræða 80% af gjaldi, þó að hámarki 25.000 kr. á ári.
Í bókun meirihluta sagði að það væri von meirihlutans að þessar aðgerðir verði til að efla enn frekar starfsanda í stofnunum bæjarins.
Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri, sagði í samtali við Víkurfréttir að kostnaður við greiðslurnar gæti numið á bilinu 8-10 milljónir króna. „Við erum með þessu að taka inn í starfsmannastefnuna viðurkenningu til þeirra sem eru með langan starfsaldur hjá okkur. Þetta verður héðan í frá árlega að fólk fær greidda ákveðna fjárhæð á fimm ára fresti samkvæmt starfsaldri.“