Grindavík: Páll Leó Jónsson verði næsti skólastjóri
Fræðslunefnd Grindavíkur hefur mælt með því að Páll Leó Jónsson verði ráðinn í stöðu skólastjóra Grunnskóla Grindavíkur. Þrjár umsóknir bárust um stöðuna en hinar tvær voru frá Boga Ragnarssyni og Garðari Páli Vignissyni. Páll Leó hefur starfað bæði sem skólastjóri og aðstoðarskólastjóri á Suðurlandi.
Nefndin var ekki eins samhljóma um ráðningu í stöðu skólastjóra Tónlistarskóla Grindavíkur. Átta umsóknir lágu fyrir og lögðu fulltrúar D-lista fram þá tillögu að Guðlaugur Viktorsson yrði ráðinn. Fulltrúar S-lista lögðu hins vegar fram tillögu þess efnis að Inga Þórðardóttir yrði ráðin í stöðuna. Sú tillaga var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.
„Fulltrúi D-lista ítrekar það mat sitt að Guðlaugur Viktorsson sé hæfastur umsækjenda með tilliti til reynslu, menntunar og þeirra umsagna er liggja frammi,“ segir í bókun D-listans.
Mynd/OK: Grindavík.